Valur bikarmeistari í fimmta sinn

Valur varð í dag bikarmeistari karla í körfuknattleik eftir sannfærandi sigur á grönnum sínum í KR 96:78 í úrslitaleiknum í Smáranum í Kópavogi. 

Ekki er erfitt að færa rök fyrir því að Valsmenn séu verðugir bikarmeistarar því þeir unnu mjög örugga sigra bæði í úrslitaleiknum og undanúrslitaleiknum á móti Keflavík.

Valsmenn eru nú með bæði Íslandsbikarinn og bikarinn í sinni vörslu því liðið varð Íslandsmeistari síðasta vor. 

Valsmenn taka syrpur þar sem þeir vinna bikarkeppni karla í körfunni. Valur varð þrívegis bikarmeistari karla á fjórum árum fyrir fjórum áratugum síðan. 1980, 1981 og 1983. Valur er nú að taka aðra rispu því liðið hefur unnið bikarinn tvívegis á síðustu þremur árum. Alls eru sigrarnir í bikarnum fimm talsins. 

Valur náði fljótt undirtökunum í úrslitaleiknum í dag og komst í 12:4 í fyrsta leikhluta. Að honum loknum var staðan 22:15. Þegar leið á annan leikhlutann hitnuðu Valsmenn fyrir utan þriggja stiga línuna og hristu þá KR-inga af sér. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 49:29. 

Í síðari hálfleik reyndu KR-ingar hvað þeir gátu til að hleypa spennu í leikinn. Þeir léku vel í þriðja leikhlutanum og minnkuðu muninn niður í 11. stig en náðu aldrei að koma forskoti Vals niður í eins stafs tölu. Þegar KR-ingum tókst vel upp þá svöruðu Valsmenn með þriggja stiga körfum. 

17 þristar

Alls settu Valsmenn niður 17 þrista en ekki er ónýtt að ná slíkri hittni í úrslitaleik. Þeir voru reyndar ekki sérlega heitir í fyrsta leikhlutanum en það átti eftir að breytast all hressilega. Valur var með 50% skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna sem er frábært í bikarúrslitaleik þar sem spennustigið er hærra en í hefðbundnum leikjum. 

En gjarnan er sagt að sterk vörn vinni bikara og það hefur sýnt sig hjá Val. Finnur Freyr Stefánsson hefur sett saman öfluga vörn og það sást vel í dag. KR-ingar þurftu að hafa mikið fyrir því að skapa sér góð skotfæri. 

Írinn Taiwo Badmus var valinn maður leiksins af KKÍ en hann skoraði 27 stig og tók 11 fráköst fyrir Val. Valur er með mörg vopn í sókninni og margir lögðu í púkkið. Fyrir vikið var nánast vonlaust fyrir KR-inga að hemja Valsmenn. Kári Jóns stýrir sóknarleiknum og finnur besta valkostinn hverju sinni. Frank Aron Booker var drjúgur í leiknum og landsliðsmennirnir Kristófer Acox og Kristinn Pálsson tóku rispur við og við. 

Hjá KR var Linards Jaunems stigahæstur með 25 stig. Honum gekk ágætlega að komast í auðveld færi nærri körfu Vals en öflug vörn Vals hélt flestum öðrum leikmönnum KR niðri. Fyrirliðinn Þórir Guðmundur Þorbjarnarson skoraði 14 stig, tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Maður sá vel að Þórir var tilbúinn til að draga vagninn í leiknum og hafði kjarkinn til að fara fyrir sínu liðu. En hlutirnir gengu ekki sérlega vel upp hjá honum að þessu sinni þótt hann hafi skilað fínu framlagi. Hann var kaldur fyrir utan þriggja stiga línuna. 

Lið KR: Þorvaldur Orri Árnason, Nimrod Hilliard, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson fyrirliði, Orri Hilmarsson, Veigar Áki Hlynsson, Jason Gigliotti, Linards Jaunzems, Vlatko Granic. 

Lið Vals: Adam Ramstedt, Hjálmar Stefánsson, Taiwo Badmus, Kristófer Acox fyrirliði, Frank Aron Booker, Kristinn Pálsson, Joshua Jefferson, Kári Jónsson. 

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

KR 78:96 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert