Njarðvík er bikarmeistari kvenna í körfubolta árið 2025 eftir sigur á Grindavík, 81:74, en leikið var í Smáranum í Kópavogi í dag.
Njarðvík er þar með bikarmeistari í annað sinn.
Fyrsti leikhluti fór að mestu í að ná úr sér stressi og hrolli. Bæði lið hittu mjög illa af vítalínunni og mátti sjá skot geiga sem almennt fara ofan í hjá báðu liðum.
Grindavíkurkonur náðu mestu forskoti í fyrsta leikhluta í stöðunni 11:4. Njarðvíkurkonur náðu þá flottum kafla og jöfnuðu í stöðunni 13:13. Eftir það var jafnt á öllum tölum og komust Njarðvíkurkonur einu sinni yfir í fyrsta leikhluta í stöðunni 16:15.
Grindavíkurkonur naðu aftur forystunni en Njarðvíkurkonur jöfnuðu alltaf jafnhraðar.
Staðan eftir fyrsta leikhlutann var jöfn, 21:21.
Njarðvíkurkonur byrjuðu annan leikhluta frábærlega þegar Sara Björk Logadóttir setti þriggja stiga körfu. Grindavík setti tveggja stiga körfu í kjölfarið en þá kom annar þristur frá Brittany Dinkins.
Njarðvíkurkonur byggðu upp mest 10 stiga forskot í stöðunni 35:25 og 39:29 en þá settu Grindavíkurkonur í næsta gír og fóru að saxa niður forskot Njarðvíkur.
Grindavíkurkonur voru langt komnar með að vinna niður forskot Njarðvíkur þegar munurinn var aðeins 5 stig í stöðunni 39:34 með tveimur vítaskotum frá Daisha Bradford en þá kom tveggja stiga karfa frá Paulina Hersler og svo vítaskot frá Brittany Dinkins.
Staðan í hálfleik 42:34 fyrir Njarðvík.
Brittany Dinkins var með 17 stig og 4 stoðsendingar fyrir Njarðvik og Emilie Sofie Hesseldal var með 8 fráköst í fyrri hálfleik.
Hulda Björk Ólafsdóttir var með 10 stig og Isabella Ósk Sigurðardóttir var með 4 fráköst og Sofie Tryggedsson Preetzmann var með 3 stoðsendingar fyrir Grindavík í fyrri hálfleik.
Þriðji leikhluti var heldur betur kaflaskiptur. Njarðvíkurkonur virtust ætla að fara landa nokkuð þægilegum sigri og byggðu upp 15 stiga forskot í stöðunni 53:38 fyrir Njarðvík.
Grindavíkurkonur voru aldeilis ekki á þeim buxunum og komu með eitt rosalegasta áhlaup sem undirritaður hefur séð. Tókst þeim að minnka muninn niður í eitt stig í stöðunni 59:58.
Þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 61:59 fyrir Njarðvík og svakalegur lokaleikhluti framundan.
Fjórði leikhluti bauð upp á alla þá spennu og dramatík sem hægt er að hugsa sér. Grindavík byrjaði á að jafna leikinn í 61:61 en þá kom flottur kafli hjá Njarðvíkurkonum sem juku muninn í 8 stig í stöðunni 69:61.
Grindavikurkonur gáfust ekki upp og jöfnuðu í 73:73. Njarðvíkurkonur náðu aftur forskoti og unnu að lokum 81:74 sigur og eru bikarmeistarar.
Brittany Dinkins skoraði 31 stig og Emilie Sofie tók 20 fráköst fyrir Njarðvík.
Daisha Bradford skoraði 21 stig og Mariana Duran tók 7 fráköst fyrir Grindavík.
Til hamingju með bikarmeistaratitilinn Njarðvíkingar.
Gangur leiksins:: 4:9, 10:13, 16:17, 21:21, 27:23, 35:27, 39:30, 42:34, 48:38, 57:45, 57:54, 61:59, 67:61, 73:67, 75:73, 81:74.
Njarðvík: Brittany Dinkins 31/10 fráköst/10 stoðsendingar, Paulina Hersler 25/9 fráköst, Emilie Sofie Hesseldal 14/20 fráköst, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 3, Sara Björk Logadóttir 3/5 fráköst, Hulda María Agnarsdóttir 3, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 2.
Fráköst: 34 í vörn, 13 í sókn.
Grindavík: Daisha Bradford 21/6 fráköst/5 stoðsendingar, Hulda Björk Ólafsdóttir 19, Isabella Ósk Sigurðardóttir 12/6 fráköst, Sofie Tryggedsson Preetzmann 10/6 fráköst/7 stoðsendingar, Mariana Duran 8/7 fráköst, Ólöf Rún Óladóttir 3, Ena Viso 1/5 fráköst.
Fráköst: 24 í vörn, 9 í sókn.
Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Davíð Kristján Hreiðarsson.
Áhorfendur: 1250.