Sá sigursæli kann betur að meta samferðafólkið

Finnur Freyr og Srdjan Tufegdzic þjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu …
Finnur Freyr og Srdjan Tufegdzic þjálfari karlaliðs Vals í knattspyrnu fallast í faðma eftir að bikarinn fór á loft í Smáranum. mbl.is/Kris

Enn einu sinni handfjatlaði körfuknattleiksþjálfarinn Finnur Freyr Stefánsson bikar í meistaraflokki þegar hann stýrði Val til sigurs í VÍS bikar karla í Smáranum í dag. 

Er þetta í fjórða skipti sem Finnur verður bikarmeistari sem þjálfari. Tvívegis með KR og tvívegis með Val. Þar að auki fimm sinnum Íslandsmeistari með KR og tvívegis með Val en undir hans stjórn eru Valsmenn nú með báða stóru bikarana í geymslu á Hlíðarenda. 

Þau eru nokkur viðurnefnin sem orðið hafa til vegna þessa. Vinnur Freyr Stefánsson og Finnur sem allt vinnur svo eitthvað sé tínt til. Mbl.is spurði Finn í Smáranum í dag hvort hann hafi alltaf jafn gaman að þessu brölti eftir alla velgengnina? 

„Já já. Mér finnst rosalega gaman að vinna körfuboltaleiki. Það er einnig gaman að gera það með góðum hópi manna. Maður kann alltaf betur að meta fólkið í kringum liðið og þá sem eru í liðinu. Hvort sem það eru árin í KR eða tíminn hjá Val þá kann ég að meta samferðamennina í þessu. Það er extra sætt að vinna sigra með fólki sem manni þykir vænt um,“ segir Finnur í samtali við mbl.is. 

Finnur Freyr fremur alvarlegur á svip á hliðarlínunni í dag.
Finnur Freyr fremur alvarlegur á svip á hliðarlínunni í dag. mbl.is/Ólafur Árdal


KR vann sannfærandi sigur gegn KR í úrslitaleiknum 96:78. Eins og leikurinn blasti við blaðamanni þá spilaði Valur hörkuvörn og dritaði niður þristum þegar leið á en liðið var með 50% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. Hvernig er að vera þjálfari á hliðarlínunni og horfa á slíka frammistöðu hjá sínu liði í leik þar sem allt er undir? 

„Meðan vörnin heldur þá líður okkur vel. Stundum var smá óðagot á okkur í sókninni. Við tókum eftir því að skytturnar okkar fengu pláss þegar við mættum KR í deildinni og nú tókst okkur að refsa fyrir það. En maður er ekkert minna stressaður þótt munurinn sé mikill. Það er kúnst að halda áfram af fullum krafti og klára leiki með stæl og við erum ekki vanir því að vera 20 stigum yfir í leikjum á þessu keppnistímabili. Það hefur bara gerst tvisvar eða þrisvar í vetur og annað skiptið var gegn Keflavík í vikunni í undanúrslitunum.“

Breytir það einhverju fyrir Finn þegar uppeldisfélagið KR er andstæðingurinn í bikarúrslitum? 

„Nei það breytir engu. Maður er með verkefni fyrir framan sig sem maður reynir að leysa. Maður veltir því aðallega fyrir sér hvaða leikmenn eru inn á vellinum og mér fannst við gera vel gegn Tóta [Þóri Guðmundi], Þorra [Þorvaldi] og Nimrod. Þetta er það sem ég sé en liturinn á búningunum er aukaatriði fyrir mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert