Lýkur lofsorði á Finn Frey

Badmus tók við sinni viðurkenningu úr hendi framkvæmdastjóra KKÍ, Hannesar …
Badmus tók við sinni viðurkenningu úr hendi framkvæmdastjóra KKÍ, Hannesar Jónssonar. mbl.is/Ólafur Árdal

Írinn Taiwo Badm­us var val­inn maður bikarúrslitaleiks­ karla af KKÍ í dag en hann skoraði 27 stig og tók 11 frá­köst fyr­ir Val í sigrinum á KR 96:78. 

„Ég er stoltur af liðinu og stoltur af þeirri vinnu sem er að baki. Leiðin að sigri sem þessum hefst á æfingum og við höfum lagt hart að okkur síðustu vikurnar. Við höfum reynt að slípa leik okkar til eins vel og hægt er. Þegar okkur tekst vel upp eins og í dag þá endurspeglar það þá vinnu sem við höfum lagt á okkur. Við blómstruðum sem lið og vörnin var lykillinn að sigrinum. Við héldum þeim undir 30 stigum í fyrri hálfleik og þegar það gerist þá er erfitt að leggja okkur að velli,“ sagði Badmus þegar mbl.is tók hann tali. 

Taiwo Badmus sendir skilaboð í leiknum í dag.
Taiwo Badmus sendir skilaboð í leiknum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Spurður um þjálfarann sigursæla, Finn Frey Stefánsson, segir Badmus að hann sé afar skipulagður og kunni að finna leikmenn sem geti unnið saman. 

„Hann er magnaður þjálfari. Og það snýst ekki bara um undirbúning fyrir úrslitaleiki heldur allt tímabilið. Það mætti líkja vinnubrögðunum við gangverk klukku. Allir þekkja sín hlutverk hjá honum og mönnum líður vel undir hans stjórn. Þegar komið er í úrslitaleikinn þá búa menn að þeirri vinnu sem hefur farið fram allt tímabilið. Einn af hans kostum er sá að hann er klókur að setja saman lið. Hann finnur leikmenn sem geta unnið saman því okkur líkar vel hver við annan. Liðsandinn er góður og ég held að það sjáist langar leiðir. Hann vill sjá okkur gefa allt í þetta en minnir okkur jafnframt á að njóta þess að spila,“ segir Badmus í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert