Formaður KKÍ: „Óþarflega mikil viðkvæmni“

Kristinn Albertsson, nýkjörinn formaður KKÍ.
Kristinn Albertsson, nýkjörinn formaður KKÍ. Ljósmynd/KKÍ

Kristinn Albertsson, nýkjörinn formaður KKÍ, hefur verið talsvert gagnrýndur innan handboltasamfélagsins vegna ummæla sem hann lét falla á ársþingi KKÍ á Grand Hótel í Reykjavík um síðustu helgi.

Kristinn sagði þá þrjátíu ára gamla sögu frá því að hann starfaði sem framkvæmdastjóri KKÍ en í sögunni kom hann meðal annars inn á það að forráðamenn HSÍ hefðu verið helst til of borubrattir í íþróttamiðstöðinni í Laugardalnum eftir góðan árangur á stórmótum á undanförnum árum.

Kristinn endaði svo ræðu sína á því að nefna það að á þessum tíma hafi verið birt vinsældarkosning á heimsvísu yfir vinsælustu íþróttir heims og þar var körfubolti í fyrsta sæti og handboltinn í 186. sæti, sæti neðar en indverskt rottuhlaup.

Margir hafa móðgast

Margir innan handboltahreyfingarinnar hafa móðgast yfir ræðu formannsins, þar á meðal Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, sem tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni.

„Ég var nú bara að rifja upp meira en þrjátíu ára gamla sögu og vettvangurinn var ársþing KKÍ þar sem öll körfuboltafjölskyldan var saman komin,“ sagði Kristinn í samtali við mbl.is.

„Mér finnst þessi viðbrögð óþarflega mikil viðkvæmni yfir 30 ára gamalli sögu. Ég var alls ekki að kasta neinni rýrð á handbolta og sjálfur er ég mikill áhugamaður um handbolta. Ég fylgist vel með íþróttinni og horfi á alla leiki landsliðanna á stórmótum. 

Ég vil handboltanum allt það besta og KKÍ og HSÍ hafa unnið mjög vel saman í gegnum tíðina. Sagan er samt góð, og hún er sönn, og svona var þetta fyrir, svo ég segi það nú aftur, þrjátíu árum síðan en auðvitað hafa tímarnir breyst mjög mikið síðan,“ sagði Kristinn í samtali við mbl.is.

Ítarlegt viðtal við Kristinn má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert