Njarðvíkingar enda í þriðja sæti úrvalsdeildar karla í körfubolta eftir sigur á Stjörnunni í kvöld. Sigurinn var ekki nægilega stór til að ná öðru sætinu af Stjörnunni en liðin enda bæði með 30 stig.
Njarðvíkingar hefðu þurft að vinna leikinn með 11 stigum en þá vantaði 4 stig upp á að ná þeim mun. Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur var þó ánægður með sigurinn þegar mbl.is náði honum í viðtal eftir leikinn.
„Ég er ánægður með sigurinn, ánægður með svörin við ekki nógu góðum köflum í fyrri hálfleik. Ég er ánægður með andlegan styrk hér í seinni hálfleik og yfirvegun og töffaraskap. Við erum grátlega nálægt því að taka annað sætið, en við mætum á erfiðan útivöll og vinnum körfuboltaleikinn og það var fyrsta skrefið.“
Njarðvíkingar mæta Álftanesi sem Njarðvík vann í báðum leikjunum í deildinni. Er mikilvægt að hafa náð sigri hér í kvöld og fara þannig inn í úrslitakeppnina gegn Álftanesi?
„Það er klárlega styrkleikamerki og við erum að sýna góðar hliðar í leiknum. Þó að við séum við það að brotna í fyrri hálfleik þá náum við að sýna ákveðinn karakter þar sem við náum að rétta okkur af áður en þetta fór í algjört þrot, og svona er þetta í úrslitakeppninni.
Það mun vera mótlæti í dómum frá áhorfendum andstæðingsins og alls konar. Þá skiptir máli að geta haldið haus og spilað þann körfubolta sem við viljum spila. Mér fannst okkur takast það í seinni hálfleik. Bæði þessi leikur og leikurinn gegn Tindastóli gefur okkur ákveðna trú á alvöruna sem fram undan er.
Næsti leikur Njarðvíkur er gegn Álftanesi í Icemar höllinni í Innri-Njarðvík. Hvað þarf til að halda sigurgöngunni gegn Álftanesi áfram?
„Agaðan körfubolta. Við þurfum að loka á þeirra styrkleika í sókn. Við þurfum að spila góðan liðsvarnarleik. Þeir eru með reynslumikla leikmenn sem kunna þetta og hafa farið í gegnum þetta áður. Við erum að fara að spila við gæðalið.
Nú reynir á okkur en við erum líka með mjög gott körfuboltalið sem er fullt af gæjum sem eru hungraðir í að halda áfram í úrslitakeppninni. Ég býst við troðfullri Icemarhöll í næstu viku og alvöru partýi í næstu viku,“ sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.