Josh Giddey tryggði Chicago Bulls dýrmætan sigur gegn Los Angeles Lakers þegar liðin mættust í NBA-deildinni í körfubolta í Chicago í nótt.
Leiknum lauk með tveggja stiga sigri Chicago, 119:117, en Giddey skoraði sigurkörfuna á síðustu sekúndu leiksins.
Coby White var stigahæstur hjá Chicago með 26 stig og níu stoðendingar en Austin Reaves var stigahæstur hjá LA Lakers með 30 stig.
LA Lakers er í fimmta sæti vesturdeildarinnar með 44 sigra og á góða möguleika á sæti í úrslitakeppninni en Chicago er í níunda sæti austurdeildarinnar með 33 sigra.
Oklahoma, Cleveland, Boston og New York hafa tryggt sér sæti í úrslitakeppninni en Utah, New Orleans, Washington, Charlotte og Brooklyn eru öll úr leik.
Úrslit næturinnar í NBA-deildinni:
Sacramento – Portland 128:107
Utah – Houston 110:121
Chicago – LA Lakers 119:117
Oklahoma City – Memphis 125:104
Miami – Atlanta 122:112
Cleveland – San Antonio 124:116
Orlando – Dallas 92:101
Washington – Indiana 109:162