„Markmiðið er að standa sig vel það sem eftir lifir tímabils,“ sagði Þóra Kristín Jónsdóttir, leikmaður Hauka í úrvalsdeild kvenna í körfubolta, í samtali við Morgunblaðið á Fosshóteli í Reykjavík í gær.
Þóra Kristín er fyrirliði deildarmeistara Hauka en hún var útnefnd besti leikmaður deildarinnar á verðlaunahátíð KKÍ á Fosshóteli í gær.
Hún skoraði 11 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar að meðaltali í 18 leikjum í deildinni í vetur en Haukar unnu alls 15 leiki og töpuðu einungis þremur.
„Við fengum öfluga leikmenn til liðs við okkur fyrir keppnistímabilið, leikmenn sem hafa reynst okkur mjög vel. Við náum allar mjög vel saman og leikmannahópurinn er mjög samheldinn. Það hefur verið góður taktur í því sem við höfum verið að gera í allan vetur og hlutirnir voru fljótir að smella,“ sagði Þóra þegar hún var spurð út í gott gengi liðsins í vetur.
Haukar ollu talsverðum vonbrigðum á síðustu leiktíð en liðið hafnaði í fimmta sæti deildarinnar og féll úr leik í 1. umferð úrslitakeppninnar eftir tap gegn Stjörnunni í oddaleik, 3:2, en Stjarnan var þá nýliði í deildinni.
„Við settum okkar það markmið, strax eftir síðasta keppnistímabil, að gera betur í ár. Síðasta tímabil var klárlega vonbrigði og við ætluðum okkur stærri hluti enda er þetta félag sem setur alltaf stefnuna á Íslandsmeistaratitilinn.
Persónulega vildi ég líka gera meira, bæði í vörn og sókn. Mér fannst ég ekki nægilega góð í fyrra og mér fannst ég ekki skila nægilega miklu framlagi til liðsins. Mér hefur gengið vel í ár og ég myndi segja að ég hafi skilað góðu framlagi.“