Erum ekki farin að hugsa svo langt

Anna Lára Vignisdóttir sækir að körfunni í leiknum í kvöld.
Anna Lára Vignisdóttir sækir að körfunni í leiknum í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

„Það var rosalegur kraftur í mínu liði í þessum leik og það var gaman að horfa á þær spila. Andstæðingar okkar áttu í miklum erfiðleikum í upphafi því við pressuðum mjög stíft á þær. Eftir það var þetta bara þungur róður fyrir Tindastól,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í körfubolta, spurður að því hvað skóp 29 stiga sigur Íslandsmeistara Keflavíkur gegn Tindastóli í kvöld.

Spurður að því hvort að grimm pressa Keflavíkurkvenna strax í upphafi leiks hafi slegið gestina út af laginu sagði Sigurður þetta:

„Við vorum í raun ekkert að pæla í Tindastóli í því samhengi. Við erum bara með ákveðnar pælingar í huga varðandi vörn og það gekk bara mjög vel upp í byrjun. Mínar konur voru vel gíraðar í þennan leik strax frá upphafi og það er ofboðslega erfitt að spila gegn svona vel gíruðu liði.“

Leikur númer tvö er næsta föstudag á Sauðárkróki. Þið ætlið ykkur væntanlega sigur þar og sópa þeim síðan úr leik hér á heimavelli í framhaldinu?

„Við erum ekki farin að hugsa svona langt. Nú erum við bara að klára þennan leik og pælum síðan í leik númer tvö á morgun. Sjáum síðan hvert það leiðir okkur,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert