Hafði ekki neinar áhyggjur

Isabella Ósk Sigurðardóttir lék afar vel í kvöld.
Isabella Ósk Sigurðardóttir lék afar vel í kvöld. mbl.is/Karítas

„Mér líður ótrúlega vel og ég er ánægð með að við náðum að klára þetta í svona spennandi leik,“ sagði Isabella Ósk Sigurðardóttir, leikmaður Grindavíkur, í samtali við mbl.is eftir að liðið sigraði Hauka, 91:86, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta.

Grindavík endaði í áttunda sæti í deildarkeppninni og rétt komst í úrslitakeppnina á meðan Haukar eru deildarmeistarar. Úrslitin komu því mörgum á óvart.

„Við fylgdum leikplaninu okkar. Við erum loksins að ná að stíga upp og sýna okkar rétta andlit í fyrsta skipti á tímabilinu. Við vitum hvað við getum og við sýndum það í kvöld.

Ég hafði ekki neinar áhyggjur. Við vorum rólegar og það sást á vellinum. Þetta var skemmtilegur leikur og mér leið vel á vellinum,“ sagði hún.

Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, fór meidd af velli snemma leiks og er óttast um að hún hafi orðið fyrir alvarlegum hnémeiðslum.

„Við stigum upp fyrir hana og kláruðum þetta fyrir hana. Nú mætum við vitlausar í næsta leik og gerum það sama,“ sagði Isabella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert