Grindavík gerði sér lítið fyrir og sigraði deildarmeistara Hauka, 91:86, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.
Grindavík hafnaði í áttunda sæti deildarkeppninnar og rétt komst í úrslitakeppnina. Réðust úrslitin í framlengingu eftir mikinn spennuleik.
Haukar byrjuðu aðeins betur og voru með naumt forskot stóran hluta fyrsta leikhluta. Grindavík komst hins vegar yfir undir lok leikhlutans og voru gestirnir óvænt með naumt forskot eftir fyrsta leikhluta, 25:22.
Haukaliðið byrjaði betur í öðrum leikhluta og náði mest sex stiga forskoti í stöðunni 35:29. Grindavík neitaði að gefast upp og komst aftur yfir, 44:42. Lore Davos skoraði hins vegar þrjú stig fyrir Hauka undir lok leikhlutans og voru Haukar með naumt forskot í hálfleik, 45:44.
Haukar voru svo sterkari aðilinn í þriðja leikhluta og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhluta 67:63. Var fjarvera Huldu Bjarkar Ólafsdóttur fyrirliða orðin erfið fyrir Grindavík en hún fór meidd af velli snemma leiks.
Grindavík minnkaði muninn í eitt stig, 69:68, þegar fjórði leikhluti var tæplega hálfnaður. Þá kom góður kafli hjá Haukum, sem komust sjö stigum yfir í fyrsta skipti í stöðunni 75:68.
Sem fyrr neitaði Grindavík að gefast upp og með góðum kafla tókst gestunum að minnka muninn aftur í eitt stig, 78:77, þegar tvær mínútur voru eftir. Daisha Bradford jafnaði í 80:80 á vítalínunni skömmu síðar. Urðu það lokatölur og því varð að framlengja.
Haukar skoruðu fjögur fyrstu stigin í framlengingunni en Grindvíkingar svöruðu með látum og komust fimm stigum yfir í fyrsta skipti í stöðunni 91:86 þegar 14 sekúndur voru eftir. Tókst Haukum ekki að jafna eftir það.
Daisha Bradford skoraði 26 stig og tók 11 fráköst fyrir Grindavík. Isabella Ósk Sigurðardóttir og Mariana Duran gerðu 19 hvor. Lore Devos skoraði 27 fyrir Hauka og Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 21 stig.
Ásvellir, Bónus deild kvenna, 31. mars 2025.
Gangur leiksins: 8:4, 14:10, 18:17, 22:25, 30:27, 37:35, 42:40, 45:44, 50:50, 56:54, 63:59, 67:63, 69:66, 75:68, 78:73, 80:80, 84:82, 86:91.
Haukar: Lore Devos 28/11 fráköst/7 stoðsendingar, Þóra Kristín Jónsdóttir 21/10 fráköst/8 stoðsendingar, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 17/5 fráköst, Diamond Alexis Battles 9, Rósa Björk Pétursdóttir 8, Eva Margrét Kristjánsdóttir 3/14 fráköst/6 stoðsendingar.
Fráköst: 29 í vörn, 17 í sókn.
Grindavík: Daisha Bradford 26/11 fráköst/5 stolnir, Isabella Ósk Sigurðardóttir 19/14 fráköst/3 varin skot, Mariana Duran 19/9 fráköst/10 stoðsendingar, Ena Viso 12/9 fráköst, Sofie Tryggedsson Preetzmann 8/4 fráköst/5 stoðsendingar, Ólöf Rún Óladóttir 5, Sóllilja Bjarnadóttir 2.
Fráköst: 33 í vörn, 16 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Guðmundur Ragnar Björnsson, Jón Svan Sverrisson.
Áhorfendur: 188.