Sigurinn var fyrir Huldu

Ena Viso úr Grindavík í baráttunni við Lore Devos hjá …
Ena Viso úr Grindavík í baráttunni við Lore Devos hjá Haukum í kvöld. mbl.is/Karítas

„Ég er reyndari en það að fara of hátt,“ sagði Þorleifur Ólafsson, þjálfari kvennaliðs Grindavíkur í körfubolta, í samtali við mbl.is eftir að liðið vann óvæntan sigur á Haukum, 91:86, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Haukar eru deildarmeistarar á meðan Grindavík rétt komst inn í úrslitakeppnina í áttunda sæti. Úrslitin í þrælskemmtilegum leik réðust í framlengingu.

„Það var gaman að landa þessu og við þurftum að vinna einn leik á útivelli og hann er kominn. Það þýðir samt ekki að við séum komin áfram.

Þorleifur Ólafsson.
Þorleifur Ólafsson. mbl.is/Ólafur Árdal

Ég hélt við værum að klúðra þessu í byrjun framlengingarinnar en það var frábær karakter í mínu liði. Það var sterkt að missa ekki trúna og ná að sækja sigurinn,“ sagði hann.

Hulda Björk Ólafsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, fór meidd af velli í fyrri hálfleik. Hún virtist sárþjáð og hélt um hnéð. Er óttast að meiðslin gætu verið alvarleg.

„Það leit ekki vel út. Sigurinn var fyrir Huldu og vonandi fæ ég góðar fréttir í kvöld,“ sagði hann.

Hulda Björk Ólafsdóttir meiddist í kvöld.
Hulda Björk Ólafsdóttir meiddist í kvöld. Ljósmynd/Egill Bjarni

Lentum í alls konar rugli

Þorleifur er spenntur fyrir komandi leikjum í einvíginu. „Mér líður nokkuð vel þótt við þurfum að bæta mjög mikið. Haukarnir hittu ekki úr því sem þær hitta venjulega úr. Þetta var frábær sigur hjá mínu liði. Ég er stoltur en það er langt í land.“

Tímabil Grindavíkur hefur verið skrautlegt. Liðið var lengi í mikilli fallbaráttu en var í kvöld að vinna deildarmeistarana í úrslitakeppninni, á útivelli.

„Við vorum lengi í gang. Við lentum í alls konar rugli á tímabilinu. Við vorum með glataðan útlending og vorum einnig að glíma við meiðsli. Það var allt í rugli en við erum vonandi komin á skrið. Við erum á góðri leið og ég lít björtum augum fram á veginn,“ sagði Þorleifur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert