Pekka Salminen frá Finnlandi hefur verið ráðinn þjálfari kvennalandsliðs Íslands í körfuknattleik.
Hann tekur við af Benedikt Guðmundssyni sem hætti störfum eftir að undankeppni Evrópumótsins í síðasta mánuði.
Salminen er 62 ára gamall og á langan feril að baki. Hann var aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Finnlands frá 2001 til 2014 og fór þrisvar með liðinu í lokakeppni Evrópumótsins og einu sinni í lokakeppni heimsmeistaramótsins.
Hann var ráðinn þjálfari finnska kvennalandsliðsins árið 2015 og stjórnaði því í átta ár. Um leið bar hann ábyrgð á uppbyggingu kvennastarfs landsliðanna frá U15 ára og upp í A-landsliðið.
Að undanförnu hefur hann verið í fullu starfi við þjálfun hjá finnska körfuknattleikssambandinu.
Salminen þjálfaði einnig karlalið Solna í Svíþjóð sem varð sænskur meistari undir hans stjórn, og þá vann hann finnska meistaratitilinn sem þjálfari Kataja. Hann hefur áður þjálfað íslenskan körfuboltamann en Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson lék undir hans stjórn með ToPo Helsinki.