Verðum að halda haus

Inga Sólveig Sigurðardóttir í leik með Tindastóli gegn Val fyrr …
Inga Sólveig Sigurðardóttir í leik með Tindastóli gegn Val fyrr á tímabilinu. mbl.is/Karítas

Kvennalið Tindastóls í körfubolta er komið undir í einvíginu gegn Íslandsmeisturum Keflavíkur eftir 29 stiga tap í Keflavík í kvöld. Það var þunnskipuð skýrsla hjá Tindastóli í kvöld sem útskýrist meðal annars út af veikindum hjá einum af þeirra besta leikmanni.

Inga Sólveig Sigurðardóttir hafði þetta að segja þegar mbl.is náði af henni tali og óskaði eftir skýringum á helst til stóru tapi í kvöld:

„Við komum bara átta í þennan leik. Okkar lykilleikmaður veiktist því miður. Við ætluðum að koma í þennan leik og byrja hann af krafti en síðan mætum við gríðarlegri pressu frá þeim strax frá upphafi og það bara sló okkur út af laginu verð ég að segja.“

Þið tapið með 29 stigum. Er það þessi mikla pressa Keflavíkurvarnarinnar sem útskýrir það?

„Við vissum alveg að þær myndu pressa og það var mjög vel gert hjá þeim en síðan vantaði okkur líka einn af okkar bestu leikmönnum, bakvörðinn okkar og það munar um minna þar. Svona er þetta bara og við verðum að halda haus og mæta sterkari til leiks á okkar heimavelli á föstudag.“

Áttu von á því að þið verðið fullmannaðar á föstudag í Skagafirðinum?

„Já klárlega. Við verðum að mæta grimmari þá og vera óhræddar við að keyra á körfuna og pressa þær í erfið skot. Við munum svara fyrir þetta þar,“ sagði Inga Sólveig í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert