Breiðablik er einum sigri frá undanúrslitum í umspili 1. deildar karla í körfubolta eftir öruggan heimasigur á Sindra, 93:66, í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitunum í kvöld. Er staðan í einvíginu 2:0, Breiðabliki í vil.
Sindri var með 23:17 forskot eftir fyrsta leikhluta en Breiðablik svaraði með 32:20-sigri í öðrum leikhluta og 19:7-sigri í þriðja leikhluta. Reyndist fjórði leikhluti formsatriði fyrir Kópavogsliðið.
Logi Guðmundsson skoraði 23 stig fyrir Breiðablik og Orri Guðmundsson bætti við 13. Jorge Magarinos skoraði 18 fyrir Sindra og Benjamin Lopez 14.
Snæfell jafnaði einvígið sitt við Hamar í 1:1 með heimasigri í kvöld, 96:93, í spennandi leik.
Jafnræði var með liðunum svo gott sem allan leikinn en eftir mikla spennu reyndust Snæfellingar ögn sterkari.
Juan Navarro skoraði 21 stig fyrir Snæfell og Khalyl Waters gerði 20. Jaeden King skoraði 28 fyrir Hamar og Fotios Lampropoulos 24.