Njarðvík tók á móti Stjörnunni í fyrstu viðureign liðanna í 8 liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta og lauk leiknum með sigri Njarðvíkur 84:75. Njarðvík er því 1:0 yfir í einvíginu en liðin mætast aftur í Garðabæ á laugardag kl. 18:00.
Njarðvíkurkonur byrjuðu leikinn mjög vel og byggðu fljótlega upp forskot. Stjörnukonur voru þó aldrei langt undan. Eftir 5 mínútur var staðan 16:9 fyrir Njarðvík.
Eins og fyrr segir gáfu Stjörnukonur ekkert eftir og hleyptu Njarðvíkingum aldrei of langt frá sér. Þegar fyrsta leikhluta lauk var munurinn 11 stig í stöðunni 29:18 fyrir Njarðvík.
Annar leikhluti var Njarðvíkingum afar erfiður. Stjörnukonur byrjuðu leikhlutann af gríðarlegum krafti með 12:0 kafla og komust yfir í stöðunni 30:29 fyrir Stjörnuna.
Njarðvíkurkonur skoruðu sín fyrstu stig í leikhlutanum þegar Lára Ösp Ásgeirsdóttir skoraði tveggja stiga körfu eftir 4 mínútur og 51 sekúndu og staðan var 31:30 fyrir Njarðvík. Stjörnukonur gáfu ekkert eftir og komust ítrekað yfir í leikhlutanum.
Berglind Katla Hlynsdóttir setti þriggja stiga körfu fyrir Stjörnuna og í kjölfarið kom tveggja stiga karfa frá Fanneyju Maríu Freysdóttur og Stjarnan var komin 5 stigum yfir í stöðunni 41:36.
Njarðvíkingar náðu að rétta úr kútnum áður en hálfleiknum lauk. Þeim tókst að jafna í stöðunni 41:41 og náðu síðan að lokum 2 stiga forskoti áður en hálfleikurinn skall á. Staðan í hálfleik var 46:44 fyrir Njarðvík.
Brittany Dinkins skoraði 16 stig í fyrri hálfleik og tók Emilie Sofie Hasseldal 8 fráköst fyrir Njarðvík.
Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 18 stig fyrir Stjörnuna og tók Denia Davis - Steward 6 fráköst.
Njarðvíkurkonur byrjuðu seinni hálfleikinn skelfilega illa og komust Stjörnukonur 8 stigum yfir í stöðunni 55:47 fyrir Stjörnuna. Þá tók Einar Árni þjálfari Njarðvíkur leikhlé.
Njarðvíkurkonur komust aftur í gang eftir þetta og náðu að saxa niður forskot Stjörnunnar og komast yfir í stöðunni 57:55. Emilie Sofie Hesseldal og Brittany Dinkins leiddu sóknarleik Njarðvíkinga það sem eftir lifði þriðja leikhluta og þegar honum lauk voru Njarðvíkurkonur með 7 stiga forskot í stöðunni 66:59.
Paulina Hersler byrjaði fjórða leikhluta á því að koma Njarðvíkingum 9 stigum yfir í stöðunni 69:58. Stjörnukonur minnkuðu muninn í 6 stig með þriggja stiga körfu frá Önu Clöru Paz.
Njarðvíkurkonur sýndu styrk sinn í framhaldinu og byggðu upp gott forskot. Þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum voru Njarðvíkingar 15 stigum yfir í stöðunni 79:64.
Stjörnukonur reyndu hvað þær gátu til að komast aftur inn í leikinn en styrkur Njarðvíkurkvenna og heimavöllurinn kom í veg fyrir það. Spyr undirritaður sig að því hvort það dugi Njarðvíkingum að spila einungis tvo ágæta leikhluta til að vinna leiki?
Brittany Dinkins skoraði 23 stig og tók Paulina Hersler 11 fráköst fyrir Njarðvík.
Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 24 stig fyrir Stjörnuna og tók Denia Davis-Steward 16 fráköst.