Það eru einkenni góðra liða

Eygló Kristín Óskarsdóttir úr Njarðvík skorar í kvöld.
Eygló Kristín Óskarsdóttir úr Njarðvík skorar í kvöld. mbl.is/Skúli

„Við erum fín í fyrstu 10 mínúturnar og erum yfir 29:18 eftir fyrsta leikhluta. Síðan taka bara við 15 mjög daprar mínútur í öðrum og þriðja leikhluta. Erum linar sóknarlega, tapaðir boltar og varnarlega vorum við bara ekki að gera nægilega vel.

Þær voru bara að skilja okkur eftir fyrir utan og komast að hringnum,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur, spurður út í slæman annan og þriðja leikhluta Njarðvíkurkvenna í kvöld.

Njarðvík vann að lokum leikinn með 9 stigum eftir að hafa náð mest 15 stiga forskoti í fjórða leikhluta. Spurður út í viðsnúninginn sagði Einar Árni þetta.

„Ég er ánægður með viðsnúninginn seinni helming þriðja leikhluta og svo fjórða leikhluta. Við hertum okkur upp og fórum að gera talsvert betur sóknarlega. Ég er líka bara hrikalega ánægður með að komast í forystu. Það er ekkert auðvelt. Fyrsti leikur í svona úrslitakeppni er alltaf ákveðin pressa og þú þarft að komast í forystu.

Ég er ánægður með að okkur hafi tekist það og við höldum yfirvegun þegar við förum í gegnum þennan vonda kafla og það eru einkenni góðra liða. Að þessu sögðu þá veit ég vel að við þurfum að spila miklu betur á laugardaginn.“

Þjálfari Stjörnunnar ræddi áðan um að breytt varnarafbrigði Njarðvíkur hafi orðið Stjörnunni að falli að lokum. Ertu sammála því?

„Við fórum í 2-3 svæði sem við höfum ekkert spilað í vetur bara með það fyrir augum til þess að sjá hvar þeirra styrkleikar liggja. Gerðum ekki nægilega vel þar og fórum fljótlega frá því yfir í aðgerðir sem við erum sjóaðri í og tókst þá að loka teignum betur. Það er það sem við þurfum að gera betur gegn þessu stjörnuliði, þær eru feykisterkar á hringinn og við þurfum að loka leiðum að hringndum fyrst og síðast.“

Er eitthvað sem þú hefur áhyggjur af eftir þennan leik?

„Nei í sjálfu sér ekki. Ég þekki mínar konur það vel og ég veit þær eru glaðar með sigurinn en ekki heildarframmistöðuna. Ég veit þær vilja gera betur á laugardaginn og við vitum að við þurfum að gera betur á laugardaginn. Ég hef ekki áhyggjur af því að það sé ekki skýrt í augum okkar allra,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert