Valsmenn unnu sigur á Grindavík í fyrsta leik liðanna í 8 liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. Finnur Feyr Stefánsson þjálfari Valsmanna hafði þetta að segja spurður að því hvað hafi skapað sigurinn hjá hans mönnum í kvöld.
„Það sem klárar þetta fyrir okkur er bara eitt stopp þarna í lokin. Daniel Mortensen fær mjög gott skot sem hann klikkar á eftir sóknarfrákast þarna í lokin. En annars náði vörnin að halda nokkuð vel í kvöld en sóknin hjá okkur var ekki upp á marga fiska þarna undir lokin. En það er smá seigla varnarlega og fráköst sem skapa þennan sigur fyrir okkur.“
Þið eruð allan leikinn að byggja upp fín forskot sem þið missið síðan niður ítrekað í gegnum allan leikinn og náið mest 15 stiga forskoti í seinni hálfleik. Tilfinningin var samt alltaf sú að þið væruð alltaf einhvern veginn með einu trompi meira í farteskinu en Grindvíkingar. Ertu sammála því?
„Ég veit það ekki. Þegar þú ert með leikmenn eins og DeAndre Kane og Jeremy Raymon Pargo á móti þér þá líður þér aldrei alveg vel því þetta eru gríðarlega góðir íþróttamenn sem geta gert alls konar hluti. Pargo tók t.d. kafla í fjórða leikhluta þar sem hann skoraði fullt af körfum og býr til margar aðrar.
Við söknuðum auðvitað Kára Jónssonar í seinni hálfleik eftir að hann meiddist og við vorum höktandi sóknarlega fannst mér. Það er eitthvað sem við þurfum að laga fyrir leikinn í Smáranum á sunnudag.“
Meiðsli Kára líta alls ekki vel út. Hann er borinn sárþjáður af velli. Ertu með einhverjar upplýsingar um stöðuna á honum?
„Nei, eins og ég segi þá söknuðum við hans og þurfum að venjast því hratt en vonandi verður hann með í næsta leik. Það verður bara að koma í ljós. Ég var bara að klára að þjálfa körfuboltaleik og er ekki menntaður í þessum fræðum. Sjúkraþjálfararnir þurfa bara að finna út úr þessu.“
Þú talar um að það þurfi að laga ákveðna hluti fyrir næsta leik í Smáranum. Hvað er það svona helst sem þú vilt sjá þína leikmenn gera betur?
„Við þurfum að vera beinskeittari heilt yfir og vera ákveðnari sóknarlega. Varnarlega þurfum við að laga nokkur atriði en síðan þarf ég betri frammistöðu frá fleirum. Mér fannst of margir vera að spila undir pari.“
Hverjir voru að spila undir pari í kvöld?
„Menn eru margir mistækir í kvöld en við erum vanir því að menn eigi slaka leiki inn á milli en mér fannst þeir bara vera fullmargir í kvöld en það er ekkert sem ég hef áhyggjur af að menn lagi ekki fyrir sunnudag," sagði Finnur Freyr í samtali við mbl.is.