Serbinn Nikola Jokic, Jókerinn, skráði sig í sögubækur NBA-deildarinnar í körfuknattleik þegar hann var með þrefalda tvennu og skoraði 61 stig fyrir Denver Nuggets í 139:140-tapi fyrir Minnesota Timberwolves í framlengdum leik í nótt.
Jokic tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Aldrei áður hefur leikmaður sem nær þrefaldri tvennu skorað jafn mörg stig í sögu deildarinnar.
Bæði Denver og Minnesota eru að minnsta kosti örugg með sæti í umspili í Vesturdeildinni líkt og Houston Rockets, LA Lakers, Golden State Warriors og Memphis Grizzlies.
Steph Curry átti stórbrotinn leik fyrir Golden State í 134:125 á Memphis í nótt.
Curry skoraði 52 stig, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar.
Grikkinn Giannis Antetokonmpou fór mikinn með Milwaukee Bucks þegar hann skoraði 37 stig, gaf 11 stoðsendingar og stal þremur boltum í 133:123-sigri á Phoenix Suns.
Gríska undrið var þó ekki stigahæst í leiknum þar sem Devin Booker var með 39 stig og 11 fráköst í liði Phoenix.
Í Austurdeildinni liggur fyrir að Cleveland Cavaliers, Boston Celtics, New York Knicks og Indiana Pacers fara í átta liða úrslitakeppni og Detroit Pistons, Milwaukee, Orlando Magic og Miami Heat eiga öll möguleika á því og fara í umspil um sæti í úrslitakeppninni hið minnsta.
Chicago Bulls er búið að tryggja sér sæti í umspilinu.
Önnur úrslit:
Atlanta – Portland 113:127
New York – Philadelphia 105:91
San Antonio – Orlando 105:116
Chicago – Toronto 137:118
Memphis – Golden State 125:134