Jóhann Þór Ólafsson þjálfari Grindavíkur var svekktur með tap á móti Val í kvöld þó að hann hafi séð margt jákvætt í leik sinna manna. Spurður út í leikinn sagði Jóhann þetta.
„Fyrri hálfleikur er ekki nægilega góður varnarlega að því leyti að við náum ekki að dekka þá nægilega vel við þriggja stiga línuna. Þeir setja 11 þriggja stiga körfur í fyrri hálfleik og líður bara alltof vel í því sem þeir eru að gera.
Síðan, eins og ég sagði við strákana fyrir leik, þá snýst þetta um smáatriðin og þau féllu bara með Valsmönnum í kvöld og það er í rauninni bara það sem skilur liðin að, það er ekkert meira en það.
Auðvitað hefðum við getað gert ýmislegt betur hérna í lokin en það er líka bara margt mjög gott sem við getum tekið með okkur í leikinn á sunnudag í Smáranum.“
Grindvíkingar eru að elta Val nánast allan leikinn. Það hlýtur að hafa tekið mikla orku frá þínu liði?
„Já að sjálfsögðu. Það tekur líka gríðarlega orku að spila við svona gott lið. Við komumst einu sinni yfir í fyrri hálfleik. En það er bara erfitt að vera svekktur því við erum að gera vel á fullt af stöðum. Við þurfum bara að taka það með okkur í næsta leik. Núna snýst þetta bara um að endurheimta vel og mæta ferskir á sunnudag.“
Þið voruð alltaf í hælunum á Valsmönnum en þegar tækifærið til að komast í bílstjórasætið í leiknum gafst þá klikkuðu þínir menn. Voru menn stressaðir eða með of þandar taugar?
„Nei, skotin koma og fara. Það er bara eins og það er. Við gerum vel í mörgu. Við fáum flott skot frá mörgum leikmönnum. Við getum ekki stjórnað þessum úrslitaskotum. Við töluðum bara um að við þyrftum að skjóta vel í þessari seríu því þeir þétta teiginn vel. Það er bara mjög erfitt að vera svekktur eða fúll því við gerðum flott af góðum hlutum og ég bara hlakka til sunnudagsins,“ sagði Jóhann Þór í samtali við mbl.is.