Valsmenn unnu spennandi fyrsta leik

Kári Jónsson úr Val kastar sér á eftir boltanum í …
Kári Jónsson úr Val kastar sér á eftir boltanum í kvöld. Taiwo Badmus og Kristófer Breki Gylfason fylgjast með. mbl.is/Karítas

Liðin sem mættust í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfubolta í fyrra, Valur og Grindavík áttust við í fyrsta leik sínum í 8 liða úrslitum Íslandsmótsins í kvöld og lauk leiknum með sigri Vals 94:89 í háspennuleik.  

Valsmenn eru því 1:0 yfir í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslitin. 

Þó svo að leikurinn hafi verið nokkuð jafn í fyrri hálfleik þá voru Valsmenn alltaf skrefi á undan og virtust vera með fleiri vopn í sínu vopnabúri en Grindvíkingar. 

Valsmenn komust 8 stigum yfir í stöðunni 17:9. Þann mun minnkuðu Grindvíkingar og jöfnuðu í stöðunni 21:21. Valsmenn náðu aftur upp forskoti í stöðunni 27:21 en Grindvíkingar héldu muninum í þremur stigum þegar fyrsta leikhluta lauk. Staðan 29:26 fyrir Val.

Kristófer Acox og Kristófer Breki Gylfason eigast við í kvöld.
Kristófer Acox og Kristófer Breki Gylfason eigast við í kvöld. mbl.is/Karítas

Grindvíkingar skoruðu fyrstu fjögur stig annars leikhluta og komust yfir 30:29. Kristinn Pálsson svaraði um hæl með þriggja stiga körfu og Valsmenn aftur yfir. Eftir þetta voru Valsmenn talsvert betri og náðu 12 stiga forskoti í stöðunni 46:34.

Mikil barátta var í leiknum og þurftu bæði lið að hafa fyrir stigum sínum, Grindvíkingar þó að því er virtist aðeins meira. Þegar fyrri hálfleik lauk var staðan 55:45 fyrir Valsmönnum sem fóru með 10 stiga forskoti inn í hálfleikinn.

Taiwo Hassan Badmus skoraði 16 stig fyrir Val í fyrri hálfleik. Kristófer Acox var með 6 fráköst. Kristófer Breki Gylfason skoraði 15 stig fyrir Grindavík og DeAndre Kane var með 5 fráköst. 

Kristinn Pálsson úr Val með boltann í kvöld.
Kristinn Pálsson úr Val með boltann í kvöld. mbl.is/Karítas

Kristófer Acox setti fyrstu stig seinni hálfleiks og kom Valsmönnum 12 stigum yfir. Því fylgdi Adam Ramstedt eftir með þriggja stiga körfu og munurinn orðinn sá mesti hingað til í leiknum eða 15 stig. 

Eftir 5 mínútur af seinni hálfleik meiddist Kári Jónsson leikmaður Vals að því er virtist ansi illa og var borinn af velli. Óskum við honum góðs bata og skjótrar endurkomu inn á körfuboltavöllinn. 

Grindvíkingum tókst að minnka muninn niður í 5 stig í stöðunn i 65:60 og leikurinn galopinn. Grindvíkingar gerðu enn betur því þeim tókst að minnka muninn niður í þrjú stig með tveimur vítaskotum Braga Guðmundssonar og staðan 65:62 fyrir Valsmenn sem neyddust til að taka leikhlé í kjölfarið enda búnir að missa niður 15 stiga forskot sitt frá því í upphafi seinni hálfleiks.

Valsmenn settu vélar sínar aftur í gang og byggðu upp 11 stiga forskot í stöðunni 77:66. Þann mun náðu Grindvíkingar að minnka niður í 9 stig áður en þriðja leikhluta lauk. Staðan fyrir fjórða leikhluta 79:70 fyrir Valsmenn.

Grindvíkingar byrjuðu fjórða leikhluta á þriggja stiga körfu frá Pargo og munurinn kominn í 6 stig. Valsmenn svöruðu um hæl og tókst að auka muninn aftur í 10 stig í stöðunni 85:75. 

Grindvíkingar gáfust ekki upp og söxuðu aftur niður forskot Valsmanna. Tókst þeim að minnka muninn í þrjú stig í stöðunni 85:82. Þá kom þriggja stiga karfa frá Badmus og munurinn aftur kominn í 6 stig. Grindvíkingum tókst að minnka muninn í 4 stig með körfu frá DeAndre Kane þegar rétt rúmlega 4 mínútur voru eftir af leiknum.

Valsmenn juku muninn í 6 stig með tveimur vítaskotum frá Badmus en Pargo tókst að setja niður gríðarlega mikilvæga þriggja stiga körfu fyrir Grindavík og þegar 1:43 var eftir af leiknum var staðan 90:87 fyrir Val og Grindvíkingar í sókn.

Grindvíkingar fengu tvö vítaskot í sókn sinni og þau fóru bæði ofan í körfuna hjá Pargo. Staðan 90:89 fyrir Val og munurinn aðeins eitt stig. Þegar 47 sekúndur voru eftir unnu Grindvíkingar boltann og gátu komist yfir. Það mistókst og þegar 12,4 sekúndur voru eftir sendu Grindvíkingar Joshua Jefferson á vítalínuna. Hann setti niður bæði vítin sín og staðan 92:89. 

Grindvíkingar tóku strax leikhlé og freistuðu þess að knýja fram framlengingu með þriggja stiga körfu en það tókst ekki því skot DeAndre Kane geigaði. Grindvíkingar brutu strax á Frank Aron Booker sem skoraði úr báðum vítaskotum sínum. 

Taiwo Hassan Badmus skoraði 28 stig fyrir Val og tók Kristófer Acox 10 fráköst. DeAndre Kane skoraði 22 stig og tók 10 fráköst fyrir Grindavík. 

Liðin næst í Smáranum á sunnudag.

Gangur leiksins:: 6:6, 17:9, 19:17, 29:26, 38:32, 46:36, 52:42, 55:45, 63:49, 65:56, 72:64, 79:70, 85:77, 88:84, 90:84, 94:89.

Valur: Taiwo Hassan Badmus 28/5 fráköst, Joshua Jefferson 18/5 stoðsendingar, Kristinn Pálsson 15/5 stoðsendingar, Kristófer Acox 10/10 fráköst, Kári Jónsson 9, Adam Ramstedt 7/7 fráköst/4 varin skot, Frank Aron Booker 4/7 fráköst, Hjálmar Stefánsson 3.

Fráköst: 28 í vörn, 8 í sókn.

Grindavík: Deandre Donte Kane 22/10 fráköst/5 stoðsendingar, Jeremy Raymon Pargo 22/6 fráköst/6 stoðsendingar, Kristófer Breki Gylfason 18, Bragi Guðmundsson 11, Lagio Grantsaan 6/4 fráköst, Valur Orri Valsson 4, Ólafur Ólafsson 3, Daniel Mortensen 3/5 fráköst.

Fráköst: 24 í vörn, 9 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Gunnlaugur Briem, Birgir Örn Hjörvarsson.

Áhorfendur: 1033.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 94:89 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert