Óvæntur sigur Álftnesinga í Njarðvík

Khalil Shabazz úr Njarðvík sækir að körfu Álftnesinga í kvöld.
Khalil Shabazz úr Njarðvík sækir að körfu Álftnesinga í kvöld. mbl.is/Skúli

Njarðvík tók á móti Álftanesi í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Álftnesinga 95:89.

Álftnesingar eru því 1:0 yfir í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslit Íslandsmótsins.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn vel og komust 5:0 yfir. Álftnesingar voru aldrei langt undan en þeirra hlutverk í fyrsta leikhluta var samt sem áður að elta.

Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður var staðan 16:10 fyrir Njarðvík. Mestur var munurinn 10 stig í stöðunni 24:14 en Álftensingar minnkuðu muninn niður í 5 stig fyrir lok leikhlutans. Staðan var 29:24.

Leikurinn snérist algjörlega við í öðrum leikhluta. Álftanes jafnaði leikinn í stöðunni 36:36 með stigum frá Justin James. Hann kom síðan Álftanesi yfir í stöðunni 37:36 með vítaskoti.

Eftir þetta varð leikurinn hálfgerð einstefna þar sem ekkert gekk upp hjá Njarðvíkingum en á sama tíma léku gestirnir á als oddi og settu niður körfur í öllum regnbogans litum.

Undir lok leikhlutans voru gestirnir komnir 12 stigum yfir í stöðunni 54:42 og lánleysi heimamanna virstist engan enda ætla að taka. Þeim tókst þó að skora síðustu 5 stig hálfleiksins með tveimur vítaskotum frá Khalil Shabazz og stórkostlegum flautuþristi frá Veigari Páli Alexanderssyni.

Staðan í hálfleik var 55:47 fyrir Álftanesi.

Khalil Shabazz skoraði 14 stig og tók Dominykas Milka 6 fráköst í fyrri hálfleik fyrir Njarðvík. Haukur Helgi Briem Pálsson skoraði 14 stig fyrir Álftanes og tók Dimitrios Klonaras 8 fráköst fyrir Álftanes.

Njarðvíkingar mættu dýrvitlausir í þriðja leikhlutann og jöfnuðu leikinn fljótlega í stöðunni 56:56. Eftir það var leikhlutinn ekkert nema spenna og dramatík þar sem liðin bókstaflega skiptust á að jafna og komast yfir.

Lokasekúndur leikhlutans voru svakalegar þegar Álftanes fékk tæknivillu sem kom þeim yfir 70:69 en flautuþristur Khalil Shabazz kom Njarðvíkingum í tveggja stiga forystu fyrir lokaleikhlutann. Staðan fyrir fjórða leikhluta var 72:70 fyrir Njarðvík.

Fjórði leikhlutinn var gríðarlega spennandi framan af. Njarðvíkingar náðu mest 3 stiga forskoti í stöðunni 80:77 en þá var komið að gestunum að leika listir sínar.

Þeim tókst að jafna í stöðunni 80:80 og komast síðan yfir 82:80. Eftir það snéru Álftnesingar aldrei til baka og unnu Njarðvíkinga í Icemar-höllinni í Innri Njarðvík 95:89.

Khalil Shabazz skoraði 30 stig fyrir Njarðvík og Dominykas Milka tók 10 fráköst. Justin James skoraði 23 stig fyrir Álftanes og tók Dimitrios Klonaras 13 fráköst.

Liðin mætast öðru sinni á Álftanesi á sunnudag.

Njarðvík - Álftanes 89:95

IceMar-höllin, Bónus deild karla, 03. apríl 2025.

Gangur leiksins:: 5:5, 16:10, 24:17, 29:24, 34:28, 38:37, 40:49, 47:55, 54:55, 60:59, 64:66, 69:70, 78:75, 80:80, 82:86, 89:95.

Njarðvík: Khalil Shabazz 30, Dominykas Milka 17/10 fráköst, Dwayne Lautier-Ogunleye 17/5 fráköst/6 stoðsendingar, Mario Matasovic 12/7 fráköst, Veigar Páll Alexandersson 8/7 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 5.

Fráköst: 26 í vörn, 9 í sókn.

Álftanes: Justin James 23/5 fráköst, Haukur Helgi Briem Pálsson 18/4 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 14/4 fráköst, David Okeke 10/6 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 9, Dimitrios Klonaras 8/13 fráköst, Dúi Þór Jónsson 7, Lukas Palyza 6.

Fráköst: 28 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson.

Áhorfendur: 532

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Njarðvík 89:95 Álftanes opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert