Stjarnan vann ÍR í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld, 101:83. Leikurinn fór fram í Garðabænum og fer Stjarnan því með forystu, 1:0, í annan leik liðanna sem fram fer í Breiðholtinu á mánudaginn.
Stjarnan byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði fyrstu 11 stigin. Þá tók Borche Ilievski, þjálfari ÍR leikhlé og við það vöknuðu gestirnir aðeins til lífsins. Stjarnan var þó alltaf skrefi á undan en ÍR, með Jacob Falko fremstan í flokki, náði mest að minnka muninn í 1 stig í fyrri hálfleiknum en að honum loknum var Falko kominn með 27 stig. Stjörnumenn áttu svo lokaáhlaup fyrri hálfleiksins sem varð til þess að munurinn var átta stig þegar liðin gengu inn til búningsherbergja.
Þriðji leikhlutinn spilaðist mjög líkt og fyrri hálfleikurinn. Stjarnan var alltaf einu skrefi á undan gestunum og þegar ÍR-ingar minnkuðu muninn svaraði Stjarnan með áhlaupi. Stjarnan náði mest 12 stiga forystu en ÍR minnkaði muninn mest niður í eitt stig. Munurinn var í kringum 10 stig stærstan hluta þriðja leikhlutans en hann var átta stig þegar þriðja leikhluta lauk.
Í fjórða leikhluta var hins vegar nokkuð ljóst hvort liðið færi með sigur af hólmi. Stjörnumenn hertu varnarleikinn og ÍR-ingar áttu fá svör við sóknarleik heimamanna á hinum enda vallarins. Shaquille Rombley lék á als oddi í liði Stjörnunnar en það átti enginn roð í hann undir körfunni, á hvorum endanum sem það var. Að lokum fór það svo að Stjarnan vann öruggan 18 stiga sigur, 101:83.
Stjarnan er því eins og áður kom fram með 1:0 forystu í einvíginu eftir þennan fyrsta leik. Næsti leikur liðanna fer fram í Breiðholtinu á mánudaginn en vinna þarf þrjá leiki til að fara áfram í undanúrslit.
Shaquille Rombley var stórkostlegur og stigahæstur Stjörnumanna í leiknum með 27 stig auk þess að taka heil 19 fráköst. Ægir Þór Steinarsson kom næstur með 24 stig, 8 stoðsendingar og 8 fráköst.
Besti maður vallarins var þó ÍR-ingurinn Jacob Falko en hann skoraði 41 stig. Næstur kom Oscar Jorgensen með 10 stig.
Umhyggjuhöllin, Bónus deild karla, 03. apríl 2025.
Gangur leiksins:: 9:0, 15:4, 22:11, 30:20, 35:33, 42:38, 51:47, 53:47, 56:53, 65:56, 69:60, 74:66, 80:70, 87:73, 95:77, 101:83.
Stjarnan: Shaquille Rombley 27/19 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 24/8 fráköst/8 stoðsendingar, Júlíus Orri Ágústsson 16, Orri Gunnarsson 15/6 fráköst, Jase Febres 9/9 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 8/4 fráköst, Bjarni Guðmann Jónson 2.
Fráköst: 30 í vörn, 18 í sókn.
ÍR: Jacob Falko 41, Oscar Jorgensen 10, Hákon Örn Hjálmarsson 9, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6/5 fráköst/5 stoðsendingar, Tómas Orri Hjálmarsson 4, Zarko Jukic 4, Collin Anthony Pryor 3/8 fráköst, Teitur Sólmundarson 2, Dani Koljanin 2, Matej Kavas 2/5 fráköst.
Fráköst: 22 í vörn, 5 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jakob Árni Ísleifsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.
Áhorfendur: 925