Njarðvík mátti sætta sig við tap gegn Álftanesi á heimavelli sínum í fyrsta leik í 8 liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Rúnar Ingi Erlingsson þjálfari Njarðvíkur hafði þetta að segja spurður að því hverju hefði munað á milli liðanna í kvöld.
„Við gáfum þeim sjálfstraust í fyrri hálfleik með því að leyfa þeim að setja 55 stig á töfluna. Við byrjuðum bæði fyrsta og þriðja leikhluta vel. Vorum snöggir að jafna þetta í þriðja leikhluta en síðan er þetta bara 50/50 leikur fram í lokin. Við náðum aldrei að hrista þá af okkur og ná þessu áhlaupi sem þurfti.
Við leyfðum þeim alltaf að svara og koma með óþarfa körfur á þessum lykiltímapunktum þar sem við vorum ekki að taka nægilega góðar ákvarðanir varnarlega. Síðan á síðustu 5 mínútunum höfum við náð að læsa þeim í deildarleikjunum en áhlaupið var þeirra megin í kvöld. Það var bara allt erfitt hjá okkur og það vantaði sjálfstraust í fleiri menn í kvöld til að spila á móti þessari annars ágætu Álftanesvörn.“
Eins og þú segir sjálfur þá virtust aðgerðir Álftaness vera mun auðveldari á meðan allt virtist erfitt í framkvæmd hjá Njarðvíkingum. Getur þú úrskýrt fyrir mér af hverju?
„Kannski sjálfstraust og síðan kemur það ekkert á óvart að þeir einfalda leik sinn síðustu 5 mínúturnar í leiknum þar sem þeir hætta að hlaupa venjulegan sóknarleik og eru með boltann í höndunum á þeirra playmaker og vinna síðan út frá því.
Mér fannst við díla ágætlega við það í seinni hálfleik en síðustu 5 mínúturnar kom gloppa í það og þeir fengu of auðveldar körfur til að búa til smá svigrúm síðustu mínúturnar og við þurfum að laga það fyrir síðasta leik.“
Tap er staðreynd og heimavallarrétturinn færist yfir til þeirra. Hvað þarf að laga fyrir leikinn gegn þeim á mánudagskvöld?
„Það er alveg gífurlega mikið sem þarf að laga. Mér fannst við aldrei ná almennilega okkar takti. Mér fannst við vera þungir andlega í dag. Kannski mikla menn svona leiki fyrir sér og eru of beittir þannig menn leyfi ekki gleðinni og smá kæruleysi að koma fram.
Því eins og ég sagði áðan þá vantaði smá meiri töffaraskap og sjálfstraust í fleiri leikmenn og við þurfum að halda betur velli í þessar 40 mínútur,“ sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is.