Keflavík tók á móti Tindastóli í öðrum leik liðanna í 8 liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta og lauk leiknum með sigri Tindastóls 96:93. Leikið var í höllinni í Keflavík.
Staðan í einvíginu er því 2:0 fyrir Tindastóli og þriðji leikurinn verður á Sauðárkróki á fimmtudagskvöldið þar sem Skagfirðingar geta gert út um einvígið.
Fyrri hálfleikur var frábær skemmtun þar sem þriggja stiga körfunum gjörsamlega rigndi niður enda tvö frábær sóknarlið að eigast við. Liðin skiptust á að leiða og varð munurinn aldrei meiri en 5 stig. Mestur var munurinn Keflvíkingum í vil í stöðunni 25:19 en Tindastóll jafnaði í 25:25. Tindastóll komst mest 5 stigum yfir í stöðunni 41:37.
Mikil harka og hraði var í leiknum sem var stórkostleg skemmtun fyrir áhorfendur en troðfullt var í Keflavíkurhöllinni í kvöld.
Staðan í hálfleik 48:45 fyrir Tindastóli.
Ty-Shon Alexander skoraði 14 stig fyrir Keflavík og Jaka Brodnik tók 5 fráköst í fyrri hálfleik.
Dimitrios Agravanis skoraði 15 stig fyrir Tindastól í fyrri hálfleik og Dedrick Deon Basile tók 4 fráköst.
Þriðji lekhluti var alvöru skemmtun. Tindastóll náði fljótlega 11 stiga forskoti í stöðunni 58:47. Þá kom frábært áhlaup hjá Keflvíkingum sem færði þeim forystuna í stöðunni 64:63. Eftir það var allt í járnum og hnífjafnt. Fór svo að eftir þriðja leikhluta voru Keflvíkingar stigi yfir í stöðunni 71:70 og von á svakalegum lokaleikhluta.
Fjórði leikhluti var álíka spennandi og þeir sem á undan voru. Tindastóll náði að byggja upp 5 stiga forskot í stöðunni 85:80. Jaka Brodnik setti þá tveggja stiga körfu og fékk að auki vítaskot sem fór líka niður. Staðan 85:83 fyrir Tindastóli og 3:40 eftir af leiknum.
Hilmar Pétursson jafnaði leikinn í stöðunni 85:85 þegar 3 mínútur og 15 sekúndur voru eftir af leiknum. Þá tók Benedikt Guðmundsson þjálfari Tindastóls leikhlé.
Adoma Drungilas kom Tindastóli yfir í stöðunni 87:85. Hilmar Pétursson minnkaði muninn í eitt stig úr vítaskoti og í kjölfarið setti Ty-Shon Alexander tveggja stiga körfu og kom Keflavík yfir í stöðunni 88:87. Keflvíkingar unnu síðan boltann og gátu aukið forskot sitt þegar ein mínúta og 24 sekúndur voru eftir af leiknum.
Það tókst ekki heldur var það Dedrick Deon Basile sem setti layup körfu og kom Tindastóli yfir þegar 55,9 sekúndur voru eftir af leiknum. Staðan 89:88 fyrir Tindastóli.
Ty-Shon Alexander fékk dæmda á sig sína aðra tæknivillu í leiknum í kjölfarið og var vísað úr húsi. Þetta notfærði Tindastóll sér og komst fjórum stigum yfir í stöðunni 92:88 og róðurinn þungur fyrir Keflavík.
Callum Reese Lawson setti þriggja stiga körfu fyrir Keflavík og minnkaði muninn í eitt stig í stöðunni 92:91 fyrir Tindastól. Keflvíkingar voru síðan alltof seinir að brjóta í kjölfarið en þegar það gerist voru 9,9 sekúndur eftir og Basile setti niður tvö vítaskot fyrir Tindastól. Staðan 94:91 fyrir Tindastól.
Keflvíkingar fengu tækifæri til að jafna. Tindastóll braut á Jaka Brodnik sem fékk tvö vítaskot þegar 5,6 sekúndur voru eftir og tókst honum að minnka muninn í 94:93.
Keflvíkingar brutu strax á gestunum og sendu þá á vítalínuna. Þeir skoruðu úr vítaskotum sínum og staðan 96:93. Callum reyndi þriggja stiga flautuskot fyrir Keflavík en hitti ekki og Tindastóll 2:0 yfir í einvíginu.
Ty-Shon Alexander skoraði 22 stig fyrir Keflavík og Callum Reese Lawson tók 7 fráköst.
Dimitrios Agravanis skoraði 26 stig fyrir Tindastól og Dedrick Deon Basile tók 7 fráköst.
Gangur leiksins:: 6:3, 8:13, 16:16, 25:23, 33:33, 37:41, 43:46, 45:48, 47:58, 56:61, 65:66, 71:70, 73:77, 80:85, 86:87, 93:96.
Keflavík: Ty-Shon Alexander 22/4 fráköst, Hilmar Pétursson 20/5 fráköst, Callum Reese Lawson 16/7 fráköst, Jaka Brodnik 12/6 fráköst, Nigel Pruitt 11, Halldór Garðar Hermannsson 6, Igor Maric 3/5 fráköst, Remu Emil Raitanen 3/6 fráköst.
Fráköst: 26 í vörn, 11 í sókn.
Tindastóll: Dimitrios Agravanis 26/7 fráköst, Dedrick Deon Basile 23/7 fráköst/5 stoðsendingar, Adomas Drungilas 20, Davis Geks 10/5 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 8, Pétur Rúnar Birgisson 7, Giannis Agravanis 2.
Fráköst: 20 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Gunnlaugur Briem, Birgir Örn Hjörvarsson.
Áhorfendur: 800.