Ljóst er hvaða sex lið eru búin að tryggja sér sæti í átta liða úrslitakeppni Austurdeildar NBA-deildarinnar í körfuknattleik og hvaða fjögur lið fara í umspil um tvö laus sæti eftir úrslit næturinnar.
Öll lið deildarinnar eiga aðeins eftir að spila þrjá til fjóra leiki og er nú ljóst að Cleveland Cavaliers, Boston Celtics, New York Knicks, Indiana Pacers, Milwaukee Bucks og Detroit Pistons fara beint í úrslitakeppnina.
Orlando Magic, Atlanta Hawks, Chicago Bulls og Miami Heat berjast svo um síðustu tvö sætin í úrslitakeppni Austurdeildarinnar.
Í Vesturdeildinni er enn hart barist þar sem aðeins tvö lið hafa tryggt sér öruggt sæti í úrslitakeppninni: Oklahoma City Thunder og Houston Rockets.
LA Lakers, Denver Nuggets, LA Clippers, Golden State Warriors, Minnesota Timberwolves og Memphis Grizzlies munu öll að minnsta kosti fara í umspil en róa öll öllum árum að því að tryggja sér beint sæti í úrslitakeppninni.
Sacramento Kings og Dallas Mavericks standa vel að vígi í baráttunni um að tryggja sér sæti í umspili en Phoenix Suns er eina liðið sem á möguleika á því að hrifsa sætið af öðru þeirra, önnur lið eru úr leik.
Stórleikur Nikola Jokic, Jókersins, dugði ekki til í 120:125-tapi Denver fyrir Indiana í nótt.
Hann skoraði 41 stig, tók 15 fráköst og gaf 13 stoðsendingar.
Önnur úrslit:
Charlotte – Chicago 117:131
Brooklyn – Toronto 109:120
Oklahoma City – LA Lakers 99:126
Atlanta – Utah 147:134
Boston – Washington 124:90
Cleveland – Sacramento 113:120
Portland – San Antonio 120:109
New York – Phoenix 112:98
Golden State – Houston 96:106
New Orleans – Milwaukee 107:111