Boston Celtics vann í nótt sinn níunda útileik í röð og lagði granna sína í New York Knicks í fjórða sinn í jafnmörgum leikjum í NBA-deildinni í körfuknattleik á þessu tímabili, 119:117 eftir framlengingu.
Jrue Holiday tryggði Boston sigurinn með fjórum vítakotum á síðustu 12 sekúndum leiksins en Kristaps Porzingis, fyrrverandi leikmaður Knicks, átti stórleik og skoraði 34 stig fyrir Boston, þar af gerði hann átta þriggja stiga körfur og jafnaði persónulegt met sitt í deildinni.
Cleveland Cavaliers tryggði sér sigur í Austurdeildinni með því að vinna Chicago Bulls örugglega, 135:113. Boston endar í öðru sæti og New York Knicks er í baráttu við Indiana Pacers um þriðja sætið.
Milwaukee Bucks og Detroit Pistons eru hin tvö liðin sem fara beint í úrslitakeppnina í Austurdeildinni og ljóst er að Orlando, Atlanta, Chicago og Miami fara í umspil um tvö síðustu sætin.
Shai Gilgeous-Alexander skoraði 42 stig fyrir Oklahoma City Thunder sem vann Los Angeles Lakers, 136:120, og hefndi fyrir tap í leik liðanna fyrir tveimur dögum. Luka Doncic hjá Lakers fékk tvær tæknivillur og var rekinn af velli og við það missti liðið tökin á leiknum.
Giannis Antetokounmpo var með þrefalda tvennu fyrir Milwaukee Bucks sem vann Minnesota Timberwolves 110:103. Hann skoraði 23 stig, tók 13 fráköst og átti tíu stoðsendingar.
Stephen Curry skoraði 25 stig fyrir Golden State Warriors sem vann Phoenix Suns, 133:95.
Úrslitin í nótt:
Orlando - Atlanta 119:112
Indiana - Washington 104:98
Cleveland - Chicago 135:113
Charlotte - Memphis 100:124
New York - Boston 117:119 (framlenging)
Brooklyn - New Orleans 119:114
Oklahoma City - LA Lakers 136:120
Milwaukee - Minnesota 110:103
Phoenix - Golden State 95:133
LA Clippers - San Antonio 122:117
Oklahoma City hefur tryggt sér sigur í Vesturdeildinni og Houston endar í öðru sæti. Lakers, Clippers, Denver, Golden State, Memphis og Minnesota eru í slag um fjögur örugg sæti í úrslitakeppninni og tvö þeirra fara í umspil.
Sacramento fer í umspilið og Dallas er í baráttu við Phoenix um síðasta sætið.