Kvennalið Stjörnunnar í körfubolta er komið í sumarfrí eftir afar naumt tap gegn Njarðvík í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í kvöld.
Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Stjörnunnar, sagðist þó vera gríðarlega stoltur af baráttu leikmanna sinna í kvöld og sagði þetta besta leik liðsins í einvíginu. Spurður nánar út í leikinn sagði Ólafur Jónas þetta:
„Þetta tókst næstum því og ég er ótrúlega stoltur af mínu liði fyrir frábæra frammistöðu í þessum leik og við gáfum allt sem við áttum. Það var bara ekki nóg í dag og því fór sem fór.“
Ef við byrjum bara strax í öðrum leikhluta þar sem Stjarnan er 18 stigum undir. Þá hefst eitthvað magnaðasta áhlaup sem ég hef orðið vitni að í kvennakörfubolta þar sem þér tókst gjörsamlega að kveikja í þínu liði og niðurstaðan var sú að ykkur tekst að saxa forskotið niður í fimm stig. Hvað gerðist?
„Við vorum bara að framkvæma það sem við töluðum um. Við vorum að setja pressu á Njarðvíkurliðið og gera þetta erfitt fyrir þær. Við vorum alltof passífar í fyrsta leikhluta og við töluðum um það áður en annar leikhluti hófst að við gætum ekki unnið körfubolta með svona passífri vörn.
Við fórum bara aðeins yfir þetta, slípuðum þetta til og sýndum hvað við getum verið flottar ef við spilum þessa vörn. Við hefðum bara þurft að gera meira af því og fyrr,“ útskýrði hann.
Þá spyr ég auðvitað af hverju spilaði Stjarnan þessa vörn ekki allan leikinn í ljósi þess að þegar ykkur tekst að minnka forskotið ákveðið mikið þá er eins og þið hættið þessari pressuvörn. Er þetta of orkufrekur varnarleikur til að spila hann í 40 mínútur?
„Mögulega. Ég held að það sé samt ekkert endilega það. Við erum að spila á móti frábæru liði og auðvitað svara þær svona áhlaupi. Njarðvík tók leikhlé og kom svo með sprett á móti. Í svona leik þar sem þú ert að berjast fyrir lífi þínu þá held ég að enginn hafi verið að spá í þreytu.
Vissulega tekur þetta mikla orku og það tekur mikla orku að vera að berjast við leikmenn eins og Brittany Dinkins og fleiri leikmenn. Njarðvík er bara klókt lið sem erfitt er að eiga við,“ sagði Ólafur Jónas.
Þetta er klárlega besti leikur Stjörnunnar í þessu einvígi. Því liggur beinast við að spyrja þig hvort þú hefðir gert eitthvað öðruvísi í hinum tveimur leikjunum með þennan leik í farteskinu?
„Nei ekki endilega. Eða jú kannski. Ég hefði líklega lagt meiri áherslu á maður á mann vörnina okkar. Því við erum ekki nógu góðar í svæðisvörninni,“ sagði hann.
Tímabilið er búið hjá Stjörnunni. Verður þú áfram þjálfari Stjörnunnar á næsta tímabili?
„Já ég er allavegana með samning svo ég býst ekki við öðru.“
Hvað með leikmenn, einhverjar breytingar þar sem þú veist af nú þegar?
„Nei ég er bara ekki farinn að hugsa svo langt þar sem við vorum bara að klára þennan leik hérna,“ sagði Ólafur Jónas í samtali við mbl.is.