Steve Kerr, þjálfari Golden State Warriors í NBA-deildinni í körfuknattleik, segist vera í áfalli yfir ákvörðun Denver Nuggets að víkja þjálfaranum Michael Malone frá störfum stuttu fyrir úrslitakeppni.
Taylor Jenkins, þjálfari Memphis Grizzlies, var sömuleiðis nýverið látinn fara frá félaginu.
„Ég var í áfalli eins og allir. Mike hefur augljóslega verið frábær þjálfari, þjálfari meistara, og hefur náð frábærum árangri. Eins og í tilfelli Taylors býst maður ekki við neinu svona þetta seint á tímabilinu.
Eins og ég sagði um Taylor þá þurfa félögin að sjá um sín mál og við höfum ekki neitt með þau að gera, þannig að ég hef ekki hugmynd um hvað var að gerast bak við tjöldin.
Ég get í raun ekki tjáð mig neitt um þetta með öðrum hætti en að óska Mike alls hins besta því hann hefur unnið frábært starf. Manni finnst þetta ekki réttlátt en svona er bransinn sem við erum í.
Við munum allir mæta svipuðum örlögum á einhverjum tímapunkti. Það er svolítið þannig sem það virkar,“ sagði Kerr á fréttamannafundi fyrir leik Golden State fyrir leik gegn Phoenix Suns.