Njarðvík og Stjarnan mættust í þriðja leik sínum í 8-liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta í Njarðvík í kvöld og lauk leiknum með sigri Njarðvíkinga 95:89.
Njarðvík vann því einvígið 3:0 og sópaði Stjörnunni í sumarfrí.
Njarðvíkurkonur mættu dýrvitlausar til leiks í kvöld og þegar tæpar 6 mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta var staðan orðin 16:9 fyrir Njarðvík. Njarðvíkingar juku forskotið það sem eftir lifði leikhlutans og var staðan að honum loknum 29:18 fyrir Njarðvík og átti Brittany Dinkins stórkostlegan leikhluta og skoraði 20 stig en allt Stjörnuliðið var með 18 stig.
Annar leikhluti var áhugaverður. Njarðvíkurkonur héldu áfram að byggja upp forskot sitt sem varð mest 18 stig í stöðunni 39:21. Þá kom eitthvað rosalegasta áhlaup sem undirritaður hefur orðið vitni að í kvennakörfubolta.
Stjörnukonur fóru að spila hápressuvörn á Njarðvíkurkonur sem virtust fara á taugum. Gestirnir stálu boltanum ítrekað og skoruðu hverja körfuna á fætur annarri og við það byggðist upp gríðarleg stemmning í Stjörnuliðinu. Tókst þeim að saxa niður 18 stiga forskot Njarðvíkinga niður í 5 stig áður en hálfleikurinn skall á.
Staðan í hálfleik 52:47 fyrir Njarðvík.
Brittany Dinkins skoraði 26 stig fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik og tók Emilie Sofie Hesseldal 7 fráköst.
Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 11 stig fyrir Stjörnuna og tók Denia Davis-Stewart 6 fráköst.
Það var mikil barátta í þriðja leikhluta. Stjörnukonur náðu að minnka muninn niður í þrjú stig í stöðunni 52:49. Njarðvíkingar voru ekki á því að hleypa Stjörnunni fram úr sér og náðu 11 stiga forskoti í stöðunni 69:58.
Stjarnan ætlaði sér ekki að láta sópa sér út úr þessari keppni baráttulaust og gafst aldrei upp. Þær settu aftur upp hápressu vörn sína og við það fóru þær strax að saxa niður forskot Njarðvíkur og þegar þriðja leikhluta lauk var munurinn aðeins 5 stig. Staðan 71:66 fyrir Njarðvík og svakalegur fjórði leikhluti eftir.
Fjórði leikhluti var svakalega spennandi. Stjörnukonur ætluðu sér ekki að detta út í kvöld og byrjuðu á því að minnka muninn niður í 4 stig í stöðunni 71:67.
Njarðvíkurkonur börðust líka eins og ljón og náðu að byggja upp 8 stiga forskot í stöðunni 80:72. Þá komu Stjörnukonur til baka og minnkuðu muninn niður í 3 stig í stöðunni 86:83 þegar 2:16 voru eftir af leiknum og algjör háspenna í gangi.
Í stöðunni 89:86 fékk Paulina Hersler tvö vítaskot. Hún hitti úr öðru þeirra og staðan 90:86 fyrir Njarðvíkinga sem unnu síðan boltann og þá mætti Lára Ösp Ásgeirsdóttir og setti niður gríðarlega mikilvægan þrist og skaut Njarðvíkingum í undanúrslitaeinvígi.
Stjarnan náði að setja þrist í kjölfarið en Brittany Dinkins fylgdi því eftir með tveimur stigum úr vítum og enduðu leikar þannig að Njarðvík vann 95:89.
Brittany Dinkins skoraði 35 stig fyrir Njarðvík og tók Emilie Sofie Hesseldal 16 fráköst.
Diljá Ögn Lárusdóttir skoraði 25 stig fyrir Stjörnuna og tók Denia Davis- Stewart 11 fráköst.
Gangur leiksins:: 4:5, 14:9, 20:13, 26:18, 36:21, 43:32, 47:41, 52:47, 52:49, 58:51, 69:58, 71:66, 77:72, 80:75, 86:81, 95:89.
Njarðvík: Brittany Dinkins 35/4 fráköst, Paulina Hersler 17/9 fráköst, Emilie Sofie Hesseldal 13/16 fráköst/5 stoðsendingar, Hulda María Agnarsdóttir 9/5 stoðsendingar, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 8, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 7, Krista Gló Magnúsdóttir 6.
Fráköst: 28 í vörn, 10 í sókn.
Stjarnan: Diljá Ögn Lárusdóttir 25/5 stolnir, Katarzyna Anna Trzeciak 18, Ana Clara Paz 12/4 fráköst, Fanney María Freysdóttir 10, Berglind Katla Hlynsdóttir 9, Denia Davis- Stewart 9/11 fráköst, Kolbrún María Ármannsdóttir 6/5 fráköst.
Fráköst: 19 í vörn, 5 í sókn.
Dómarar: Gunnlaugur Briem, Jakob Árni Ísleifsson, Einar Valur Gunnarsson.
Áhorfendur: 197