Valsmenn eru komnir með bakið upp við vegg eftir 11 stiga tap gegn Grindavík á Hlíðarenda í kvöld. Staðan í einvíginu er 2:1 fyrir Grindavík en þrjá leiki þarf til að komast í undanúrslit.
Grindvíkingar eru því komnir í undanúrslit sigri þeir Val á sínum heimavelli i Smáranum á mánudaginn. Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals hafði þetta að segja þegar hann var spurður út í ástæður þess að Valur tapaði í kvöld:
„Þeir gerðu vel varnarlega finnst mér. Þeir voru að ýta okkur út úr okkar aðgerðum og þeir gerðu það vel. Við vorum í basli með að koma okkar lykilleikmönnum í stöður til að vera aggressívir en þegar það tókst þá vorum við ekki að nýta færin nægilega vel.“
Voru margir af þínum leikmönnum að spila undir getu í kvöld?
„Já, já við erum vanir að sjá meira frá mörgum en það verður bara að hrósa Grindvíkingum fyrir þeirra varnarleik,“ sagði Finnur.
Hvað er það helst sem þú hefðir viljað sjá þína menn gera betur til að ná betir úrslitum hér á Hlíðarenda í kvöld?
„Það er erfitt að segja svona strax eftir leik. Kannski þegar við vorum búnir að spila góða vörn þá ná Grindvíkingar sóknarfráköstum alltof oft og fá auka 14 sekúndur. Við þurfum að stoppa það. Strákar eins og Óli, Daniel og Arnór gerðu bara vel fyrir Grindavik í kvöld og pikkuðu vel upp fyrir sitt lið,“ sagði hann.
Næsti leikur er á mánudaginn í Smáranum. Þar verða Valsmenn að vinna til að ná fram oddaleik hér á Hlíðarenda. Hvað þarf til að vinna Grindavík á þeirra heimavelli?
„Við þurfum bara að skoða okkar leik og finna einhverjar leiðir. Við þurfum líka að endurstilla hausinn. Við vorum fullfljótir að missa hausinn á köflum. Við þurfum að vera fókuseraðri.“
Er mikill munur á leik Vals í leik 2 og 3 í samanburði við leik númer 1 sem þið unnuð?
„Já það er margt en kannski aðallega að við erum ekki að ná að losa okkur jafn vel og við gerðum í fyrsta leiknum en aftur, það þarf að hrósa Grindavík fyrir það,“ sagði Finnur Freyr í samtali við mbl.is.