Tindastóll tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. Liðið lagði Keflavík örugglega í Síkinu, 100:75, og vann þar með sannfærandi sigur í einvíginu, 3:0. Keflvíkingar eru því komnir í sumarfrí, töluvert fyrr en þeir hefðu viljað.
Heimamenn byrjuðu leikinn mun betur og komust meðal annars í 20:8 í fyrsta leikhluta. Keflvíkingar voru afleitir sóknarlega og voru einungis með átta stig eftir níu mínútna leik. Þrátt fyrir það náðu þeir að hanga í seilingarfjarlægð frá Tindastóli en munurinn að loknum fyrsta leikhluta var átta stig, 22:14, en hefði hæglega getað verið töluvert meiri.
Annar leikhluti var svipaður að því leiti að heimamenn litu töluvert betur út en einhvern veginn náðu þeir ekki að slíta sig almennilega frá gestunum fyrr en undir blálok hálfleiksins. Þá kom góður kafli og þegar liðin gengu til búningsherbergja var munurinn 18 stig, 52:34.
Ragnar Ágústsson og Sadio Doucoure voru mættir aftur í lið Tindastóls og lét sá síðarnefndi svo sannarlega vita af sér. Hann dró vagninn stigalega séð í fyrri hálfleik og þegar honum var lokið var hann stigahæstur á vellinum með 16 stig.
Þegar seinni hálfleikur hófst virtust heimamenn ætla að ganga frá leiknum og komust meira en 20 stigum yfir. Þá hins vegar kom loksins góður kafli frá gestunum sem minnkuðu muninn á augabragði niður í 12 stig svo Benedikt Guðmundsson, þjálfari Tindastóls, neyddist til að taka leikhlé.
Eftir leikhléið virtust heimamenn ná takti aftur og var munurinn kominn aftur í 20 stig, jafn fljótt og hann fór niður í 12 stig skömmu áður. Virkilega góður endasprettur heimamanna í leikhlutanum varð til þess að munurinn var 22 stig fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Heimamenn byrjuðu fjórða leikhlutann vel og var strax morgunljóst að það væri engin endurkoma í kortunum hjá gestunum. Skagfirðingar gengu á lagið og unnu að lokum afar sannfærandi 25 stiga sigur, 100:75.
Tindastóll kemur því til með að leika til undanúrslita í Íslandsmótinu á meðan Keflvíkingar eru komnir í sumarfrí. Það er nokkuð ljóst að breytingar munu eiga sér stað í sumar en Sigurður Ingimundarson verður væntanlega ekki áfram þjálfari liðsins eftir að hafa tekið við liðinu til bráðabirgða í vetur. Þá er ljóst að einhverjir leikmenn hafa leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.
Stigahæstur í liði Tindastóls var Sadio Doucoure með 21 stig en hann tók einnig 11 fráköst. Næstur kom Dedrick Deon Basile með 20 stig og 7 stoðsendingar.
Hjá Keflavík var Jaka Brodnik stigahæstur með 16 stig og 7 fráköst en Ty-Shon Alexander kom næstur með 14 stig.