Grindavík er í dauðafæri á að slá Val út í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta eftir sigur á Hlíðarenda í kvöld. Staðan er 2:1 í einvíginu og dugir Grindvíkingum sigur á sínum heimavelli næsta mánudag til að komast í undanúrslit.
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var að vonum ánægður með úrslitin í kvöld og hrósaði varnarleik Grindavíkur þegar mbl.is náði af honum tali.
Hvað skóp sigur Grindavíkur í kvöld?
„Varnarleikurinn okkar er hrikalega góður og það er það sem er að gefa okkur þennan sigur og þessar frammistöður í þessari seríu. Við erum búnir að vera mjög sterkir í vörn, sérstaklega í leik 2 og 3,“ sagði Jóhann.
Grindvíkingum tekst að halda helstu nöfnum Vals í skefjum í kvöld. Það ná aðeins tveir leikmenn Vals að setja fleiri en tíu stig. Eru Grindvíkingar komnir með góð tök á Valsmönnum?
„Við leggjum þetta upp á ákveðinn hátt og við höfum svo sem haldið okkur við sama plan alla leikina. Joshua Jefferson setti fannst mér nokkur erfið þriggja stiga skot sem er vel gert hjá honum. Við gátum ekkert gert í því og Valsmenn eru bara með svakalegt lið sem þýðir að við þurfum að vera mjög aktífir varnarlega því þeir eru með ógnir alls staðar en það tókst í kvöld og skilaði okkur sigrinum,“ sagði hann.
Það koma sérstaklega tveir kaflar í leiknum þar sem Grindavík er með gott forskot en Valsmenn ná að vinna það upp á nánast engum tíma. Hvað er að gerast á þessum tímapunktum í ykkar leik?
„Þetta er bara leikur áhlaupa og þeir eru mjög góðir en við erum það líka þannig að það sem er að gerast þarna er bara það að þeim er að takast að ná árangri í sínu áhlaupi sem kostar okkur þessi forskot á þessum tímapunktum.
Þetta er bara svona fram og til baka. Þannig er þetta og þannig verður þetta. En ég verð bara að hrósa mínu liði fyrir það hvernig þeir halda haus og halda leikskipulagi. Það er ekkert auðvelt að gera það í svona leikjum,“ sagði Jóhann.
Þið væntanlega ætlið að klára þetta í Smáranum á mánudagskvöldið. Hvað þarf til að það takist?
„Við þurfum að ná okkur niður á jörðina. Ég hef svo sem ekki áhyggjur af því. Við erum með reynslu í þessu liði og vitum að við erum langt frá því að vera komnir í gegnum þessa seríu og þurfum bara að ná endurheimt og standa klárir og vera tilbúnir á mánudaginn,“ sagði Jóhann Þór Ólafsson að lokum í samtali við mbl.is.