Landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson hefur framlengt samning sinn við Álftanes og verður hann hjá félaginu næstu tvö ár.
Er um afar góðar fréttir fyrir Álftanes að ræða en liðið mætir Njarðvík á útivelli í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í Njarðvík í kvöld. Álftanes er með 2:0 forystu í einvíginu og sigur í kvöld tryggir liðinu sæti í undanúrslitunum.
Haukur, sem er 32 ára, kom til Álftaness fyrir síðustu leiktíð og hefur átt stóran þátt í upprisu liðsins, sem var nýliði í efstu deild er Haukur kom til félagsins.
Hann er uppalinn hjá Fjölni en hefur einnig leikið með Njarðvík hér á landi. Sem atvinnumaður lék hann á Spáni, í Frakklandi, Rússlandi og Svíþjóð en kom aftur heim árið 2021.