Haukar jöfnuðu í kvöld einvígið sitt við Grindavík í átta liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta í 2:2 og leika liðin því oddaleik á miðvikudagskvöldið um sæti í undanúrslitum.
Grindavík vann tvo fyrstu leiki einvígisins en Haukar hafa nú svarað með tveimur sigrum og fá oddaleik á heimavelli. Urðu lokatölurnar í kvöld 86:81.
Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi allan tímann og varð munurinn aldrei meiri en fimm stig en liðin skiptust á að vera með nauma forystu.
Haukar unnu fyrsta leikhlutann 26:22 en Grindavík svaraði með 22:16 sigri í öðrum leikhluta og var staðan í hálfleik því 44:42, Grindavík í vil.
Liðin skiptust á að vera með forystuna allan seinni hálfleikinn en staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var 64:62, Haukum í vil.
Í fjórða leikhluta skiptust liðin á að skora en tvær þriggja stiga körfur frá Tinnu Guðrúnu Alexandersdóttur í lokin reyndust Haukum dýrmætar og fóru gestirnir að lokum með nauman sigur af hólmi.
Tinna Guðrún var stigahæst hjá Haukum með 32 stig. Lore Devos gerði 17. Daisha Bradford átti stórleik fyrir Grindavík, skoraði 31 stig og tók 13 fráköst. Mariana Duran lék einnig mjög vel, skoraði 16 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar.