Kjartan Atli Kjartansson þjálfari Álftaness var að vonum ekki kátur með helst til stórt tap gegn Njarðvík í gærkvöldi. Álftanes er þó enn í kjörstöðu því liðinu nægir enn þá sigur á þriðjudaginn þegar liðin mætast aftur í 8 liða úrslitum til að komast áfram í undanúrslit.
Við spurðum Kjartan út í leikinn í gærkvöld og af hverju lið hans tapaði svona stórt eftir að hafa átt mjög fínan fyrri hálfleik og verið betra liðið.
„Við leiddum í 15 mínútur í fyrri hálfleik. Síðan fór bara takturinn yfir til þeirra. Þeir fönguðu stemmninguna og gerðu það mjög vel. Þeir fóru að spila á okkur svæðisvörn og við vorum í smá tíma að átta okkur á henni en á meðan hittu þeir gríðarlega vel.
Boltinn sogast oft í orkuna. Þeir voru mjög orkumiklir og þeir bara fönguðu augnablikið sem var mjög vel gert hjá þeim.“
Stemmningin í kvöld var gríðarleg hjá báðum liðum. Álftnesingar sátu á efstu stúkum hússins í kvöld. Mega Njarðvíkingar eiga von á hefndum í leiknum á þriðjudaginn?
„Það verður bara brjáluð stemmning held ég. Annars er ég bara að þjálfa liðið, þannig ef þú ert að spá í einhverri skipulagningu eða eitthvað svoleiðis þá veit ég ekki hvernig það verður. Ég býst bara við því að það verði virkilega öflug stemmning.
Fólkið okkar er búið að styðja gríðarlega vel við okkur frá degi eitt og er bara með okkur í þessari vegferð. En ég er strax farinn að hlakka til leiksins á þriðjudaginn og ég get ekki beðið eftir næsta leik.
Núna bara hefst þessi vinna að greina þennan leik og fara yfir það sem fór úrskeiðis og hvað við getum gert betur. Síðan þurfum við bara að fara að stilla okkur inn á næsta leik og mæta með kassann úti. Þannig lið erum við og þannig lið verðum við. Það er bara næsta verkefni.
Við munum mæta virkilega vel gíraðir í leikinn á þriðjudag. Við verðum virkilega tilbúnir í leikinn og ætlum okkur að slá Njarðvík út,“ sagði Kjartan Atli í samtali við mbl.is.