Jón Axel Guðmundsson spilaði vel í sigri San Pablo Burgos á Oviedo í spænsku B-deildinni í körfubolta í dag en leikurinn endaði með sex stiga sigri San Pablo Burgos, 78:72.
Jón Axel skoraði 14 stig, tók fimm fráköst og gaf fimm stoðsendingar á rétt rúmum 30 spiluðum mínútum í dag og var hann næst stigahæstur sinna manna.
Með sigrinum í dag styrkti San Pablo Burgos stöðu sína á toppi deildarinnar en liðið er nú þremur stigum á undan Fuenlabrada. Aðeins efsta lið deildarinnar fer sjálfkrafa upp í A-deildina en liðin sem lenda í 2.-9. sæti fara í umspil um að komast upp um deild.