Íslandsmeistarar Vals eru komnir í sumarfrí eftir tap gegn Grindavík í 8 liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Valsmenn unnu fyrsta leik liðanna í einvíginu en í kjölfarið komu 3 sigrar í röð hjá Grindavík sem fer í undanúrslit.
Valsmenn leiddu nánast allan leikinn í kvöld og náðu nokkrum sinnum 12 stiga forskoti í leiknum. Það var síðan í fjórða leikhluta sem Valsmenn misstu leikinn frá sér.
Finnur Freyr Stefánsson þjálfari Vals var að vonum svekktur með úrslitin í kvöld þegar mbl.is spurði hann hvað hefði valdið því að Valur missti leikinn frá sér í fjórða leikhluta.
„Þetta er svipaður taktur og var í síðustu tveimur leikjum á undan. Þegar við förum að hægja á okkur og hættum að gera hlutina jafn vel og við vorum að gera í fyrri hálfleik þá fara Grindvíkingar að spila frábæra vörn og setja niður stór skot sem við á sama tíma erum að klikka á.
Grindavik er betra lið. Það er ekkert hægt að segja annað og það vegni þeim vel sem og öðrum liðum í úrslitakeppninni.“
Ef við greinum leikinn örlítið betur. Hvað breytist í fjórða leikhluta eftir að þið komist ítrekað 12 stigum yfir í fyrri hálfleik, leiðið með 11 stiga mun í hálfleik og þriggja stiga mun eftir þriðja leikhluta?
„Joshua Jefferson var að gera mjög vel framan af til að halda okkur í forystu. Síðan hægist á sóknarleiknum og við hættum að hreyfa okkur jafn vel og finna Kristófer. Við vorum bara ekki að gera hlutina jafn vel og við vorum að gera í fyrri hálfleik og því fór sem fór,“ sagði Finnur Freyr í samtali við mbl.is.