Álftanes og Njarðvík eigast við í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta á morgun en leikið verður á Álftanesi. Staðan í einvíginu er 2:1 fyrir Álftanesi og getur liðið með sigri tryggt sér sæti í undanúrslitum.
Baráttan er á fleiri stöðum en bara inni á vellinum því stuðningsmenn liðanna hafa háð sína baráttu líka og snýst hún um sætaskipan í stúkum heimaliðanna.
Þegar Álftanes mætti til leiks í Njarðvík á föstudag fengu stuðningsmenn Álftaness sæti uppi í rjáfri. Það skal þó sagt að þau sæti eru prýðilega góð og útsýnið er gott. Hins vegar voru stuðningsmenn heldur fjarri vellinum og vildu stuðningsmenn Álftanes meina að með þessu hafi þeir misst tengingu við völlinn og liðið sitt.
Heimildarmaður mbl.is frá Njarðvík sagði að fyrir leik númer 2 á Álftanesi hafi flestum stuðningsmönnum Njarðvíkur verið komið fyrir bak við ritaraborð og varamannabekki liðanna þar sem útsýni var mjög takmarkað.
Þetta hafi verið breyting frá fyrri heimaleikjum Álftaness í vetur þar sem áhorfendur útiliðs hafi verið með helming stúkunnar á móti varamannabekk síns liðs.
Nú er komið að næsta leik sem verður á Álftanesi annað kvöld. Í gær, sunnudag birtist póstur á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Álftaness þar sem gefið var í skyn að stuðningsmenn Njarðvíkur fengju sæti bak við glervegg í höllinni en sagt var:
„Heimamenn hafa ákveðið að láta eftir VIP-svæði félagsins þar sem útsýnið yfir völlinn er alveg einstakt.“ Með fylgdu ljósmyndir af umræddum staðsetningum:
Undirritaður sló á þráðinn til Óskars Más Alfreðssonar sem sér um skipulagningu fyrir heimaleiki Álftanes og spurði hann út í póstinn og alvöruna á bakvið hann.
Óskar fór strax að hlæja og sagði að um góðlátlegt grín væri að ræða og að Álftnesingar myndu að sjálfsögðu eftirláta Njarðvíkingum 30% af stúkusætum hallarinnar eins og reglur segja till um.
„Við tökum vel á móti Njarðvíkingum á morgun og hvetjum þá til að mæta snemma og fá sér hamborgara með okkur og drykk með. Einnig munu stuðningsmenn eiga tækifæri á að taka þátt í hálfleiks uppákomu þar sem skotið er í körfuna frá miðju,“ sagði Óskar.
Einnig ítrekaði hann að um frábæra rimmu liðanna væri að ræða og hvatti alla til að mæta með gleðina að vopni á morgun og skemmta sér sem best áður en hann óskaði þess að betra liðið myndi vinna á morgun.