Golden State Warriors er komið í úrslitakeppni bandarísku NBA-deildar karla í körfuknattleik eftir sigur á Memphis Grizziles, 121:116, í San Francisco í nótt.
Golden State mun mæta Houston Rockets, sem hafnaði í öðru sæti Vesturdeildarinnar, í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Memphis er þó ekki úr leik en liðið mætir Sacramento Kings eða Dallas Mavericks í leik um áttunda sætið. Mun sigurliðið úr því einvígi mæta Oklahoma City Thunder, sem vann Vesturdeildina, í fyrstu umferðinni.
Mikil spenna var á lokamínútum leiksins en Memphis fékk tækifæri til að jafna þegar örfáar sekúndur voru eftir. Hins vegar mistókst það þar sem leikmenn liðsins voru of lengi að koma boltanum í leik.
Jimmy Butler fór á kostum í liði Golden State en hann skoraði 38 stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar. Steph Curry var þá rosalegur í fjórða leikhluta en hann skoraði síðustu tíu stig liðsins og 37 alls.
Hjá Memphis skoraði Desmond Bane 30 stig, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
Orlando Magic lenti ekki í miklum vandræðum með Atlanta Hawks í 120:96-sigri í umspili Austurdeildarinnar í Orlando í nótt.
Orlando hafnar í sjöunda sæti og mætir NBA-meisturum Boston Celtics í fyrstu umferð. Atlanta mun mæta Chicago Bulls eða Miami Heat í leik um áttunda sætið og mun sigurvegari þess einvígis mæta Cleveland Cavaliers.
Cole Anthony skoraði 26 stig, tók þrjú fráköst og gaf sex stoðsendingar í liði Orlando en Trae Young skoraði 28 stig, tók tvö fráköst og gaf sex stoðsendingar í liði Atlanta.