Einar Jónsson þjálfari Fram var ansi brattur eftir sigur á FH í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Spurður út í sigurinn sagði Einar þetta:
„Fyrst og fremst er ég hrikalega ánægður með okkur. Við gerðum þetta vel og vorum betra liðið alveg frá fyrstu mínútu. Vörnin var góð og sóknin að mestu leyti líka.
Þetta hökti aðeins um miðbik seinni hálfleiks þegar Birkir Fannar fór að verja nokkur dauðafæri og á sama tíma gerðum við nokkra tæknifeila á meðan við gerðum kannski einn tæknifeil í fyrri hálfleik.
Þannig að á þessum tímapunkti vorum við kannski sjálfum okkur verstir en ég meina fokki it, þetta eru 18-19 ára strákar sem eru hérna inni á vellinum og ef þeir gera ekki einhver mistök í 60 mínútur að þá er kannski frekar eitthvað að.
Níu marka leikmaðurinn Reynir Þór Stefánsson fær beint rautt spjald þegar 5 mínútur eru eftir og að auki blátt spjald. Eftir að hafa séð þetta á myndbandi þá er ljóst að hann sparkar til Birgis Más og dómurinn er réttur. Hefur þú áhyggjur af því að hann fái leikbann fyrir þetta atvik?
„Nei, ég er ekki búinn að sjá þetta en ég treysti dómurunum fyrir þessu og þeir sáu þetta. Þetta er bara rétt. En, nei, ég held nú ekki. Þeir sem hafa séð þetta vilja meina að þetta hafi verið mjög saklaust. Þá meina ég ekki fast eða þannig. En, klárlega rétt þar sem hann brást illa við. Ég vona að hann fari ekki í bann. Það verður bara að koma í ljós og þetta eru hlutir sem við höfum ekki stjórn á.“
Það hlýtur að vera gríðarlega mikilvægt að komast yfir í einvíginu. Hvernig verður þetta á ykkar heimavelli á öðrum í páskum?
„Ég á von á svipaðri baráttu. Núna þurfum við að nota tímann vel og endurheimta orkuna. Vonandi endurheimtum við eitthvað af þessum leikmönnum sem eru frá en það verður að koma í ljós. Þannig að þetta er bara hefðbundið. Fara yfir leikinn, endurheimta og skipuleggja næsta leik,“ sagði Einar í samtali við mbl.is.