Miami Heat hafði betur gegn Chicago Bulls, 109:90, í umspili bandarísku NBA-deildar karla í körfubolta í Chicago í nótt.
Miami mun mæta Atlanta í úrslitaleik um síðasta sætið í úrslitakeppninni í Atlanta. Mun sigurvegari þess leiks mæta Cleveland Cavaliers í fyrstu umferð Austurdeildarinnar.
Tyler Herro fór á kostum í liði Miami en hann skoraði 38 stig, tók fimm fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
Hjá Chicago var Josh Giddey atkvæðamestur með 25 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar.
Þá vann Dallas Mavericks Sacramento Kings, 120:114, í Sacramento í nótt. Dallas er komið áfram í úrslitaleik um síðasta sætið í Vesturdeildinni.
Dallas mun mæta Memphis í Memphis en sigurliðið úr þeim leik mætir Oklahoma City Thunder í fyrstu umferð.
Anthony Davis skoraði 27 stig, tók níu fráköst og gaf eina stoðsendingu í liði Dallas en hjá Sacramento skoraði DeMar DeRozan 33 stig, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar.