Njarðvík náði forystu í undanúrslitaeinvíginu gegn Keflavík í Íslandsmóti kvenna í körfubolta í kvöld eftir sigur í Njarðvík.
Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur var að vonum ánægður með að vera kominn yfir í einvíginu og hafði þetta að segja við mbl.is spurður út í hvað væri gott og hvað væri slæmt í leik Njarðvíkur í kvöld:
„Ég var ánægður með varnarleikinn heilt yfir. Sérstaklega frákastabaráttuna sem ég geri auðvitað kröfu um að við vinnum í baráttu þessara liða. Það eru þessir tveir þættir sem standa upp úr.
Ég er líka ánægður með hvernig við svörum þeirra áhlaupum á háu tempói. Við vorum bara skynsamar og leituðum inn á Paulinu Hersler þegar Keflavík var að djöflast í Brittany.
Slæmu hlutirnir eru kannski þeir að við vorum ekki í góðu skipulagi á móti svæðisvörninni þeirra í fyrri hálfleik. Það er eitthvað sem við þurfum að laga strax. Það er punktur til að vinna úr og verða betri í. Við svo sem leystum það betur strax í síðari hálfleik.“
Ef við stöldum þarna við. Keflavík spilaði hápressuvörn á Njarðvík nokkrum sinnum í leiknum sem virtist riðla leik Njarðvíkur talsvert. Er þetta áhyggjuefni fyrir leikinn gegn þeim í Keflavík?
„Nei, ég held ekki. Við vorum búin að undirbúa okkur eins vel og hægt var. Við vissum að þær hafa verið að spila aðallega þrjú varnarafbrigði. Það var ekkert óvænt þar og við töldum okkur vera með plönin þar á hreinu. Við vorum hins vegar með óðagot á köflum.
Ég sagði við stelpurnar í hálfleik að það væri pínu kæruleysi yfir sendingunum í fyrri hálfleik. Þær voru of soft og það gengur ekki. Það var lagað bara strax í seinni hálfleik enda töpuðum við 3 boltum í seinni hálfleik í samanburði við 8 í fyrri. Ég get lifað með því.“
Hvað þarf Njarðvík að gera til að koma í veg fyrir að Keflvíkingum takist að kveikja í stemmningunni á þeirra heimavelli með tilheyrandi látum og hraða í næsta leik?
„Þetta er eðli íþróttarinnar. Þetta er leikur áhlaupa og til að komast í gegnum slíkan kafla þarftu að halda í yfirvegun og trú því að við erum búin að sjá þetta allt áður á móti þeim.
Þær komast 10 stigum yfir í hálfleik í leiknum í mars en við klárum. Þær komast aftur 10 stigum yfir í seinni hálfleik og við komum til baka og vinnum. Þetta snýst bara um að halda ró og trú. Bæði er til staðar hjá okkur.“
Hvað þarf til að vinna næsta leik á þeirra heimavelli?
„Við þurfum að reisa levelið um 1-2 stig. Það er þannig þegar þú ert að spila á móti sama liðinu aftur og aftur. Þú ert að spila á móti frábæru liði og við vorum ekkert að spila fullkominn leik í dag. Við þurfum að laga ýmislegt og svo bara hafa hugarfarið á réttum stað. Þetta er sería og þetta var bara einn leikur. Nú er bara að undirbúa sig fyrir næsta stríð,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is.