Álftanes jafnaði metin gegn Tindastóli í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Heimamenn í Álftanesi unnu sigur, 94:92, í frábærum körfuboltaleik og er staðan í einvíginu því 1:1.
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta þar sem Tindastóll var u.þ.b. einni körfu á undan þar til David Okeke jafnaði metin af vítalínunni þegar 10 sekúndur voru eftir af leikhlutanum. Það stærsta í fyrsta leikhluta var líklega það að Sadio Doucoure, leikmaður Tindastóls, náði sér í þrjár villur og eina tæknivillu á sjö mínútum. Hann settist því á bekkinn með fjórar villur og fékk hvíld út fyrri hálfleikinn. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var jöfn, 28:28.
Í öðrum leikhluta voru það svo heimamenn sem voru skrefinu á undan. Það var mikill kraftur í Kaldalónshöllinni, innan vallar jafnt sem utan og Álftnesingar náðu snemma nokkura stiga forskoti sem hélst út leikhlutann. Justin James fór fyrir Álftanesi í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að hafa farið örlítið brösulega af stað, en hann skoraði 17 stig í fyrri hálfleik. Þá var David Okeke einnig öflugur með 14 stig en gestirnir réðu illa við hann undir körfunni. Hjá gestunum var Sigtryggur Arnar Björnsson öflugastur en hann skoraði 17 stig.
Staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var 54:48, heimamönnum í vil. Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn örlítið betur og minnkuðu muninn, án þess þó að ná að jafna. Þegar leið á þriðja leikhlutann juku heimamenn, með Justin James og David Okeke fremsta í flokki, muninn aftur og leiddu með sjö stigum fyrir fjórða leikhluta, 71:64.
Gestirnir byrjuðu fjórða leikhlutann betur og þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af honum jafnaði Dimitrios Agravanis metin í 75:75 með fallegri þriggja stiga körfu. Hann setti svo tvo þrista til viðbótar í kjölfarið og skyndilega voru gestirnir þremur stigum yfir, 81:78. Skömmu síðar náðu heimamenn þó aftur forystunni en restin af leiknum bauð uppá ótrúlega spennu. Munurinn var á bilinu tvö til fimm stig það sem eftir lifði leiks en flestir héldu að þetta væri komið þegar Álftanes náði sex stiga forystu með hálfa mínútu eftir. Því svaraði hins vegar Giannis Agravanis með þriggja stiga körfu og vítaskoti með því.
Álftnesingar voru ekki langt frá því að tapa boltanum eftir vítaskot Agravanis en sluppu með skrekkinn. Dimitrios Klonaras fór á vítalínuna fyrir Álftanes þegar 13 sekúndur voru eftir en klikkaði báðum skotunum. Gestirnir fóru fram en náðu ekki að skora og því voru það heimamenn sem unnu leikinn, 94:92, í stórkostlegum körfuboltaleik.
Það er því allt jafnt í einvíginu þegar liðin mætast í þriðja leik á Sauðárkróki á þriðjudaginn næstkomandi.
Hjá Álftanesi var Justin James fremstur meðal jafningja en hann skoraði 29 stig, tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar. David Okeke var einnig illviðráðanlegur með 18 sti og 10 fráköst og þá skoraði Haukur Helgi Pálsson 17 stig. Hjá Tindastóli var Giannis Agravanis stigahæstur með 24 stig en bróðir hans, Dimitrios Agravanis, kom næstur með 19 stig.
Kaldalónshöllin, Bónus deild karla, 25. apríl 2025.
Gangur leiksins:: 4:7, 11:16, 20:22, 28:28, 32:32, 43:37, 49:43, 54:48, 58:53, 63:58, 65:62, 71:64, 75:72, 78:78, 86:85, 94:92.
Álftanes: Justin James 29/8 fráköst/6 stoðsendingar, David Okeke 18/10 fráköst, Haukur Helgi Briem Pálsson 17/6 fráköst/5 stoðsendingar, Dimitrios Klonaras 14/6 fráköst, Dúi Þór Jónsson 11, Hörður Axel Vilhjálmsson 3/5 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 2/5 fráköst.
Fráköst: 33 í vörn, 10 í sókn.
Tindastóll: Giannis Agravanis 24/7 fráköst, Dimitrios Agravanis 19/6 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 17, Dedrick Deon Basile 12/7 stoðsendingar, Adomas Drungilas 9/9 fráköst, Sadio Doucoure 6, Davis Geks 3, Pétur Rúnar Birgisson 2/6 stoðsendingar.
Fráköst: 25 í vörn, 7 í sókn.
Dómarar: Bjarki Þór Davíðsson, Gunnlaugur Briem, Birgir Örn Hjörvarsson.
Áhorfendur: 1038