Benedikt Guðmundsson, þjálfari Tindastóls, var svekktur eftir tap gegn Álftanesi í öðrum leik undanúrslita Íslandsmóts karla í körfubolta á Álftanesi í kvöld. Staðan í einvíginu eftir leik kvöldsins er 1:1.
„Við vildum og ætluðum að vinna þennan leik en svo varð þetta bara 50/50 í lokin þar sem þeir voru aðeins sterkari á svellinu. Þeir settu mikilvæg stig á meðan boltinn var aðeins að hristast uppúr hjá okkur og við vorum ekki alveg að nýta færin sem við fengum til að hirða þennan leik. Svona er þetta bara stundum, „on to the next one“ eins og sagt er.“
Baráttan í báðum liðum skein í gegn og það var greinilegt að bæði lið ætluðu sér að vinna, enda gífurlega mikið undir.
„Menn lögðu sig alla í þetta. Mér fannst við vera að pirra okkur of mikið á einhverjum dómaramistökum í byrjun, við verðum að vera sterkari á svellinu þar. Það koma kannski einhverjir glórulausir dómar og við megum ekki láta það fara of mikið í hausinn á okkur heldur verðum við bara að skilja að það sé bara partur af leiknum. Að öðru leiti fannst mér framlagið og hausinn vera á réttum stað, sigurviljinn var klárlega til staðar.
Við fáum á okkur allt of mikið af stigum í fyrri hálfleik en náum aðeins að laga það í seinni. Það bara dugði ekki til. Álftanes er bara drullu gott lið og áttu sigurinn skilið.“
Sadio Doucoure lenti snemma í villuvandræðum en hann var kominn með fjórar villur eftir einungis sjö mínútur. Fjórða villan var tæknivilla sem hann fékk fyrir viðbrögð við þriðju villunni, sem honum fannst ódýr.
„Mér fannst þetta ógeðslega ósanngjarnt. Hann fær þriðju villuna þegar leikmaður í hinu liðinu dettur og jújú, hann joggar útaf og baðar út höndum en það eru mikil vonbrigði að menn skuli setja tæknivillu á það, ég átti ekki von á því. Þetta varð til þess að þeir ná 10:0 áhlaupi í kjölfarið þar sem þeir eru að fá stig og víti en svo unnum við úr því og komum okkur aftur inn í þetta. Við þurfum að vera sterkari í hausnum þegar svona dómaramistök verða.“
Það sem eftir lifði leiks virtust leikmann beggja liða komast ansi oft upp með alvarlegri hluti en Doucoure í fyrsta leikhluta, án þess að fá tæknivillu.
„Þess vegna er ég svona vonsvikinn með þetta. Dómarinn sem gaf tæknivilluna hefur nú ekki verið þekktur fyrir að vera að eltast við svona smámuni heldur hefur hann bara verið í góðum samskiptum við leikmenn og þjálfara. Þess vegna var ég mjög hissa og átti ekki von á þessu.
Við erum samt með nóg af mönnum og það kemur maður í manns stað þó hann hafi verið flautaður út úr þessu snemma frekar ósanngjarnt.“
Næsti leikur liðanna fer fram á Sauðárkróki og á Benedikt ekki von á því að það verði erfitt að gíra sína menn upp í þann leik eftir svona tap.
„Menn eru gíraðir í alla leiki á þessum árstíma. Okkar fólk mun fjölmenna á leikinn á þriðjudaginn og við ætlum að búa til góða stemningu þar. Ég veit að menn eru margir hverjir hundsvekktir með sjálfa sig og við eigum slatta inni finnst mér. Vonandi náum við því fram á þriðjudaginn.
Það hefur enginn kvartað yfir meiðslum ennþá en svo kemur oft ýmislegt í ljós daginn eftir þegar menn eru orðnir kaldir. Ég veit það betur á morgun.“