Minnesota Timberwolves er komið í 2:1 í einvígi sínu við Los Angeles Lakers í átta liða úrslitum bandarísku NBA-deildar karla í körfubolta eftir sigur, 116:104, í Minnesota í nótt.
Minnesota vann fyrsta leikinn í Los Angeles og Lakers annan en fjóra sigra þarf til að komast í undanúrslitin.
Þrátt fyrir tapið átti LeBron James stórleik en hann skoraði 38 stig, tók tíu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar í liði Lakers. Hjá Minnesota skoraði Anthony Edwards 29 stig, tók átta fráköst og gaf átta stoðsendingar.
Næsti leikur liðanna fer fram næsta sunnudagskvöld.
Orlando Magic minnkaði muninn gegn NBA-meisturum Boston Celtics með 95:93-sigri í Orlando í nótt. Staðan er 2:1 fyrir Boston eftir fyrstu þrjá leikina.
Franz Wagner skoraði 32 stig, tók sjö fráköst og gaf átta stoðsendingar í liði Orlando en hjá Boston skoraði Jayson Tatum 36 stig, tók níu fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.
Næsti leikur liðanna fer fram aðfaranótt mánudags.
Giannis Antetokounmpo átti þá enn einn stórleikinn fyrir Milwaukee Bucks í sigri liðsins á Indiana Pacers, 117:101, í Milwaukee í nótt.
Staðan er 2:1 fyrir Indiana eftir fyrstu þrjá leikina en næsti leikur liðanna fer fram aðfaranótt miðvikudags.
Giannis skoraði 37 stig, tók tólf fráköst og gaf sex stoðsendingar í liði Milwaukee. Pascal Siakam var atkvæðamestur hjá Indiana með 28 stig, fimm fráköst og tvær stoðsendingar.