Ótrúleg karfa frá Aaron Gordon tryggði Denver Nuggets útisigur á Los Angeles Clippers í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í Los Angeles í nótt, 101:99.
Allt stefndi í framlengingu þegar staðan var 99:99 og skot frá Nikola Jokic geigaði gjörsamlega. Gordon hirti hins vegar boltann í loftinu og náði að troða honum með tilþrifum í körfu Clippers.
Þrjár mínútur tók að fá úr því skorið hvort leiktíminn hefði verið liðinn eða ekki þegar Gordon skoraði en karfan var að lokum metin lögleg og Denver hafði þar með jafnað metin í einvíginu í 2:2.
Jokic skoraði 26 stig fyrir Denver og tók 21 frákast, auk 8 stoðsendnga. Sannkölluð tröllatvenna hjá Serbanum. Michael Porter og Christian Braun skoruðu 17 stig hvor og hetjan Gordon 14.
Ivica Zubac skoraði 19 stig fyrir Clippers og tók 12 fráköst. Liðin slást um hvort þeirra mætir Oklahoma City Thunder í undanúrslitum Vesturdeildar en Oklahoma afgreiddi Memphis 4:0.
Golden State náði forystunni gegn Houston Rockets, 2:1, með útisigri í Texas, 104:93. Þar skoraði Stephen Curry 36 stig fyrir Golden State en Alperen Sengun var með 15 stig og 11 fráköst fyrir Houston.