Njarðvík sópaði nágrönnum sínum úr Keflavík út úr úrslitakeppninni í þriðja leik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í Íslandsmóti kvenna í körfubolta. Endaði leikurinn með 101:89-sigri Njarðvíkur í kvöld.
Það eru því bikarmeistarar Njarðvíkur og deildarmeistarar Hauka sem eigast við í úrslitaeinvíginu.
Það munaði engu á liðunum í fyrsta leikhluta sem skiptust á að vera yfir allan leikhlutann. Þegar rúmlega 5 mínútur voru liðnar af leikhlutanum voru Keflvíkingar 14:13 yfir en þegar honum lauk var Njarðvík 27:22 yfir eftir glæsilegan flautuþrist frá Láru Ösp Ásgeirsdóttur sem hafði stuttu áður skorað aðra þriggja stiga körfu. Njarðvíkingar kvörtuðu mikið í fyrsta leikhluta undan grófum varnarleik Keflavíkur og höfðu Njarðvíkingar líklega eitthvað til síns máls þar.
Annar leikhluti var kaflaskiptur. Njarðvíkingar byggðu upp 13 stiga forskot í stöðunni 40:27 en þá tóku Keflvíkingar öll völd á vellinum og jöfnuðu leikinn í stöðunni 44:44. Stórkostlegur kafli Keflvíkinga. Njarðvíkingum tókst að ná forystunni aftur fyrir hálfleik og var staðan að loknum fyrri hálfleik 46:44 fyrir Njarðvík í afar spennandi fyrri hálfleik.
Brittany Dinkins skoraði 14 stig, tók 4 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í fyrri hálfleik fyrir Njarðvik.
Jasmine Dickey skoraði 23 stig og tók 7 fráköst í fyrri hálfleik fyrir Keflavík.
Keflavík. Njarðvíkurkonur gáfu samt ekkert eftir og náðu aftur forystunni. Mestur var munurinn 10 stig í stöðunni 75:65 fyrir Njarðvík en Jasmine tókst að minnka muninn niður í 5 stig fyrir Keflavík. Þá kom annar flautuþristur Láru Aspar Ásgeirsdóttur í leiknum og Njarðvík fór inn í fjórða leikhluta með 8 stiga forskot í stöðunni 78:70.
Keflavík minnkaði muninn strax niður í 5 stig í byrjun fjórða leikhluta og staðan var 78:73. Sara Björk Logadóttir setti þá þriggja stiga körfu fyrir Njarðvík og byrjuðu Njarðvíkurkonur að byggja upp gott forskot. Þegar 5 mínútur voru liðnar af leikhlutanum var staðan 91:77 fyrir Njarðvík og fátt annað var í stöðunni en að Njarðvík væri að fara sópa nágrönnum sínum út úr úrslitakeppninni.
Keflavík reyndi allt sem í þeirra valdi stóð til að knýja fram spennandi lokamínútur en Njarðvíkurliðið var einu númeri of stórt fyrir Keflavík. Það verður því Njarðvík sem mætir Haukum í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta þetta árið.
Brittany Dinkins skoraði 36 stig fyrir Njarðvík og tók Emilie Sofie Hesseldal 15 fráköst.
Jasmine Dickey skoraði 37 stig og tók 14 fráköst fyrir Keflavík.