Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur var svekktur með tap gegn Njarðvík í kvöld sem þýðir að Keflavík er komið í sumarfrí frá Íslandsmóti kvenna í körfubolta. Spurður út í leikinn í kvöld og tímabil Keflvíkinga sagði hann þetta:
„Það vantaði aðeins upp á ákefðina varnarlega hjá okkur sem ég hélt við værum búin að ná og værum að framkvæma eins og þarf til að komast lengra í þessu móti. Það gekk ekki í dag. Síðan erum við bara búin að eiga afleita skotleiki. Ekki bara í þessum leik heldur bara í öllu einvíginu gegn Njarðvík.
Hvað veldur því að liðið hittir illa í þessum leikjum í ljósi þess að hér eru á ferðinni frábærir leikmenn sem hafa unnið alla þá titla sem í boði eru hér á Íslandi?
„Það getur verið rosalega margt. Þetta var mjög erfiður vetur. Sjálfstraustið í liðinu var afskaplega lágt og þegar sjálfstraustið er lítið þá verður erfiðara að hitta í körfuna. Karfan verður þrengri og þú hittir síður.“
En er það þá ekki í raun svarið við því af hverju Keflavík er að fara út úr þessu tímabili án titils eftir að hafa unnið alla titlana á síðasta ári?
„Jú jú, þetta er ekki neitt annað. Þetta er bara kollurinn því þessir leikmenn hafa allt sem þarf getulega séð. Auðvitað er hægt að segja að ég og Siggi hefðum getað gert eitthvað betur en við skjótum ekki boltanum og hittum ekki á körfuna. Við fengum fullt af opnum skotum í kvöld og ef þú skoðar þessa seríu í heildina þá veit ég ekki hvað við klikkuðum á mörgum layup-um.
Þetta er bara búinn að vera erfiður vetur og ég held að það hafi bara endurspeglast í þessari seríu. Við komum inn í þetta í janúar og fengum liðið í hendurnar með mjög lítið sjálfstraust. Við reyndum að gera eins og við gátum og það var bara ekki nægilega mikið.
Við samt héldum það. Við töldum okkur vera komna lengra með liðið, sérstaklega eftir einvígið gegn Tindastóli. En það var ekki.“
Eftir að þið takið við liðinu í janúar hefur samt verið mikill stígandi í liðinu og allt annar gangur á liðinu eftir áramót, ekki satt?
„Jújú, við þekkjum okkar klúbb og vitum alveg hvað þessir leikmenn geta og okkar vinna var að berja í þær sjálfstraust en það gekk ekki alveg.“
Úr þeirri stöðu sem var komin um áramótin telst það afleitt að hafa komið liðinu upp í efri hlutann í töflunni og í undanúrslit?
„Ekki afleitt en ekki nógu gott. Ég er ekki í þessu bara til að vera næstum því. Það er ekki gaman,“ sagði Jón Halldór í samtali við mbl.is.