Stjarnan og Grindavík áttust við í þriðja leik sínum í undanúrslitaviðureign liðanna í Íslandsmóti karla í körfubolta í kvöld og lauk leiknum með sigri Grindavíkur 105:91.
Er þetta fyrsti sigur Grindavíkur á Stjörnunni í Garðabæ síðan í febrúar 2018 en Stjarnan hefði verið komin í úrslit með sigri.
Staðan í einvíginu er því 2:1 fyrir Stjörnunni en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið gegn Tindastóli eða Álftanesi. Liðin mætast í fjórða sinn í Smáranum í Kópavogi á föstudagskvöldið.
Fyrsti leikhluti var mjög jafn. Grindavík byrjaði á að leiða en fljótlega náði Stjarnan að jafna og komast í bílstjórasætið. Mestur var munurinn í leikhlutanum einmitt þegar honum lauk og leiddi þá Stjarnan með fjórum stigum 25:21.
Stjarnan byrjaði annan leikhluta á því að auka muninn í 6 stig. Þann mun vann Grindavík upp og komst síðan yfir. Grindvíkingar leiddu mestan part annars leikhluta með 2-3 stigum en luku honum með glæsilegri Alley-oop körfu Arnórs Tristan Helgasonar og Grindvíkingar fóru með 6 stiga forskot inn í seinni hálfleikinn. 57:51.
Dómarar leiksins höfðu fín tök á leiknum og voru með frekar stranga línu sem var líklega hárrétt ákvörðun þar sem orkan í húsinu hefði auðveldlega getað boðið upp á algjöra vitleysu. Fín dómgæsla var í fyrri hálfleik.Jeremy Raymon Pargo var með 16 stig og 6 fráköst fyrir Grindavík í fyrri hálfleik.
Ægir Þór Steinarsson var með 14 stig fyrir Stjörnuna og Jase Febres var með 5 fráköst í fyrri hálfleik.
Grindvíkingar léku á alls oddi í þriðja leikhluta og hófu uppbyggingu á gríðarlega sterkur forskoti. Það gerði gæfumuninn að leikmenn eins og Ólafur Ólafsson, Kristófer Breki og Daníel Tristan héldu áfram að gera sitt og því til viðbótar fóru þeir að setja niður þrista. Þegar leikhlutanum lauk var staðan 88:71 fyrir Grindavík.
Það var allt á suðupunkti í fjórða leikhluta og munaði litlu að til handalögmála kæmi milli leikmanna. Dómarar leiksins héldu þó leiknum innan allra marka og ber að hrósa þeim fyrir það.
Stjarnan gerði alvöru áhlaup og minnkaði muninn niður í 8 stig í stöðunni 96:88 og fór þá um marga Grindvíkinga í stúkunni í ljósi síðasta leiks. Grindvíkingar juku forskotið aftur í 12 stig í stöðunni 100:88.
Grindvíkingum tókst að byggja upp 14 stiga forskot og unnu að lokum gríðarlega mikilvægan 14 stiga sigur.
Hilmar Smári Henningsson skoraði 27 stig fyrir Stjörnuna og Jase Febres tók 10 fráköst.
Ólafur Ólafsson skoraði 25 stig fyrir Grindavík og Daniel Mortensen tók 11 fráköst.
Gangur leiksins:: 2:6, 12:13, 17:18, 25:21, 30:29, 33:40, 44:48, 51:57, 57:64, 59:71, 66:77, 71:88, 79:90, 85:96, 88:100, 91:105.
Stjarnan: Hilmar Smári Henningsson 27, Ægir Þór Steinarsson 22/6 stoðsendingar, Jase Febres 16/12 fráköst, Orri Gunnarsson 9/6 fráköst, Shaquille Rombley 8/4 fráköst, Bjarni Guðmann Jónson 5/5 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 2, Júlíus Orri Ágústsson 2/4 fráköst.
Fráköst: 21 í vörn, 16 í sókn.
Grindavík: Ólafur Ólafsson 25/8 fráköst, Jeremy Raymon Pargo 19/9 fráköst/7 stoðsendingar, Deandre Donte Kane 18/5 fráköst/11 stoðsendingar, Daniel Mortensen 15/12 fráköst/5 varin skot, Kristófer Breki Gylfason 12, Arnór Tristan Helgason 9, Bragi Guðmundsson 5, Lagio Grantsaan 2.
Fráköst: 29 í vörn, 10 í sókn.
Dómarar: Jóhannes Páll Friðriksson, Gunnlaugur Briem, Davíð Kristján Hreiðarsson.
Áhorfendur: 1260.